Fjögurra daga Gjörningarhátíð
A! Gjörningahátíð er fjögurra daga hátíð sem hefst í dag, fimmtudaginn 31. ágúst og lýkur sunnudaginn 3. september. Að hátíðinni standa Listasafnið á Akureyri, LÓKAL alþjóðleg leiklistarhátíð, Reykjavík Dance Festival, Menningarfélag Akureyrar, Leikfélag Akureyrar og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar.
A! er hátíð þar sem myndlistar- og sviðslistafólk fremur gjörninga og setur upp gjörningatengd verk. A! Gjörningahátíð er nú haldin í þriðja sinn en í tilkynningu segir að hátíðin hafi slegið í gegn strax þegar hún var haldin í fyrsta sinn í september árið 2015 og sóttu um 1.500 gestir hátíðina. Þátttakendur voru vel þekktir gjörningalistamenn, leikarar og ungir, upprennandi listamenn. Vídeólistahátíðin Heim var haldin á Akureyri á sama tíma og „off venue“ viðburðir víðsvegar um bæinn. Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur sagði í pistli í Víðsjá á Rás 1 um hátíðina meðal annars:
„Dagskrá Gjörningahátíðarinnar A! var því ekki aðeins fjölbreytt heldur í heildina einkar vel heppnuð. Sú ákvörðun að stefna saman eldri listamönnum og upprennandi, gestum og heimamönnum virðist vera góð uppskrift að hátíð sem vonandi verður árlegur viðburður."
Gjörningarnir á A! 2017 munu fara fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, Samkomuhúsinu, Hofi, Verksmiðjunni á Hjalteyri, Kaktus, Rósenborg, Deiglunni, Lystigarðinum og á fleiri stöðum á Akureyri.
Listamennirnir og hóparnir sem taka þátt að þessu sinni eru Arna Valsdóttir (IS) og Suchan Kinoshita (J/NL), Gabrielle Cerberville (USA), Gjörningaklúbburinn / The Icelandic Love Corporation (IS), Heiðdís Hólm (IS), Hekla Björt Helgadóttir & Svefnleikhúsið - The Sleep Theatre (IS), Katrine Faber (DK), Magnús Logi Kristinsson (IS/SF), Voiceland – Gísli Grétarsson (IS/N), Mareike Dobewall (D) og Hymnodia (IS), Ragnheiður Harpa Leifsdóttir (IS), Rúrí (IS), Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir (IS) og Liv-K. Nome (N). Á sama tíma fer vídeóalistahátíðin Heim fram og þar taka þátt nemendur Suchan Kinoshita úr Listakademíunni í Münster, Þýskalandi.
Myndlistarsjóður styrkir A! Gjörningahátið.