Fjallahjólagarpur sem rannsakar frumkvöðlaframlag kvenna
Kjartan Sigurðsson er lektor við Viðskiptadeild Heilbrigðis, viðskipta- og raunvísindasviðs Háskólans á Akureyri og hefur starfað við háskólann síðan í ágúst 2022.
Kjartan er með BA próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands, MS í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík og doktorspróf í stjórnun fyrirtækja frá sama háskóla. „Rannsóknarsvið mitt hefur að mestu verið á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja, áætlanagerðar (e. strategy), sjálfbærni og félagslegrar nýsköpunar (e. social innovation) en doktorsverkefnið mitt fjallar um þessa þætti,“ segir Kjartan.
Þrífst í heimi nýsköpunar og frumkvöðla
Árið 2018 bauðst Kjartani starf við University of Twente í Hollandi þar sem hann var fenginn til að taka að sér kennslu á sviði nýsköpunar og frumkvöðlafræða. „Ég hafði verið virkur í atvinnulífinu með mikla innsýn í störf frumkvöðla og heim nýsköpunar og einhvern veginn fréttist það alla leið til Hollands að það væri maður á Íslandi sem hefði víðtæka þekkingu og reynslu úr atvinnulífinu og að sama skapi þekkingu og reynslu sem fræðimaður innan veggja háskóla. Vegna þessa var haft samband við mig og mér boðið starf við University of Twente. Ég tók starfinu og kenndi nýsköpun og frumkvöðlafræði við skólann, en einnig námskeið á sviði sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja þar til ég hóf störf við HA í ágúst 2022,“ segir Kjartan sem nefnir að hann hafi heillast af þessum vettvangi sem fræðimaður og hefur verið að beina athygli sinni að rannsóknum og þátttöku í verkefnum á sviði nýsköpunar og frumkvöðlafræða. Í stuttu máli segir Kjartan að rannsóknir hans snúi að því að skoða áhuga kvenna og drifkraft þeirra til uppbyggingar og stofnunar nýrra fyrirtækja. „Markmiðið er að greina og túlka þætti sem hafa áhrif á nýsköpun og þátttöku þeirra í þróun hugmynda og nýrra viðskiptatækifæra,“ útskýrir Kjartan nánar.
Frumkvöðlaframlag kvenna heillandi
Í kennslu fæst Kjartan við þessa þætti og kemur víða við. Við Viðskiptadeild kennir Kjartan annars vegar námskeiðið Vöruþróun og Nýsköpun og hins vegar Rekstrarstjórnun og þá mun hann á haustmisseri kenna hluta af námskeiði á meistarastigi sem heitir Heilbrigði og heilbrigðisþjónusta: Staða, stefnur og straumar sem kennt er við Hjúkrunarfræðideild. Kjartan kennir einnig eitt námskeið á meistarastigi við Háskólann í Reykjavík auk þess sem hann hefur ekki alveg rofið tengslin við Holland þar sem hann kemur að smávægilegu verkefni tengdu náminu sem hann stýrði áður en hann kom í HA.
Nýverið fór Kjartan af stað með rannsóknir á frumkvöðlaframlagi kvenna: „Ég er nýkominn frá magnaðri ráðstefnu sem fór fram við Babson College í Boston og var áherslan þar eingöngu á rannsóknir á konum sem frumkvöðlar — áhersla mín verður á rannsóknir á þessu sviði næstu misseri,“ segir Kjartan.
Nýsköpunar- og frumkvöðlasetur við HA
Kjartan segir margt áhugavert vera að gerast innan Háskólans á Akureyri á sviði nýsköpunar og frumkvöðlafræða. „Ég tók að mér að koma á fót nýsköpunar- og frumkvöðlasetri við HA sem mun formlega líta dagsins ljós á þessu ári. Þá er gaman að segja frá því að ég hef átt í sérlega góðum samskiptum við fólkið hjá Norðanátt, Eimi og fleiri einstaklinga í nýsköpun en það er mikill kraftur í frumkvöðlastuðningsumhverfinu og mikil uppsveifla í gangi á Norðurlandi sem þarf að fylgja eftir af krafti og ég hef verið lánsamur að fá að taka þátt í því og mun halda því áfram,“ segir Kjartan.
Ætlaði að verða bóndi eða sálfræðingur
Kjartan er fæddur í Reykjavík árið 1966 og er uppalinn þar en segist þó alltaf haft rætur í sveitinni á Suðurlandi: „Það lá í rauninni beinast við að verða bóndi, en ég ólst upp við hestamennsku með foreldrum mínum og dvaldi öll sumur frá því ég var krakki á Álfhólum í Vestur Landeyjum. Þar var mikil gróska í hestamennsku, enda á búið sér langa og sérlega árangursríka sögu í ræktun gæðinga.“
Kjartan hefur nokkuð víðtæka menntun en fyrsta gráðan hans var í rakara- og hárgreiðsluiðn. „Síðan lá leið mín í Háskóla Íslands þar sem ég hóf nám í sálfræði en það er skemmst frá því að segja að ég ætlaði frá unga aldri að verða annað hvort sálfræðingur eða bóndi. Ekki varð ég bóndi og ég komst að því að sálfræði var ekki eins áhugaverð og ég hélt og færði mig því yfir í félagsfræði, útskrifaðist þaðan og hóf síðan nám á meistarastigi við Háskólann í Reykjavík í alþjóðaviðskiptum. Þaðan lá leið mín í doktorsnám við HR og University of Nottingham, sem mér tókst að ljúka. Ég tel að ég hafi verið með besta leiðbeinanda í heimi, Marinu Candi, en þetta var blóð, sviti og tár en sérlega áhugavert og lærdómsríkt ferðalag,“ rifjar Kjartan upp.
Fjallahjól og hestamennska
Með þessa víðtæku menntun í farteskinu kom Kjartan víða við áður en hann hóf störf við HA. „Ég rak hárgreiðslustofu ásamt konunni minni árin 1991 til 2007 og stofnaði Taekwondo deild Fram árið 2004. Ég hef starfað hjá fyrirtækjum víða í Evrópu sem sérfræðingur á sviði þróunar og innleiðingar nýrra viðskiptamódela með áherslu á nýsköpun og sjálfbærni. Einnig hef ég komið að stofnun nokkurra fyrirtækja, tekið þátt í stjórn nokkurra slíkra og uni glaður við starfið mitt hjá HA sem er sérlega áhugavert og skemmtilegt,“ segir Kjartan léttur í bragði.
Kjartan segir rannsóknir vera mikilvægar í starfinu en að þær séu einnig áhugamál enda snúa þær í hans tilviki að mestu um magnaða heima frumkvöðla og nýsköpunar. „Áhugasvið mitt er enn hestamennska, þó svo ég hafi ekki haft mikinn tíma fyrir það áhugamál síðastliðin tíu til fimmtán ár. Ég á hins vegar nokkra hesta úr eigin ræktun og er í samstarfi við hrossaræktarbúið Laxárholt í Borgarfirði með hrossin mín. Ég stunda einnig fjallahjólamennsku af miklum krafti og hef gert síðastliðin 20 ár, geggjað sport sem ég ætla að halda áfram að stunda. Skotveiðar hafa einnig skipað stóran sess í lífi mínu og stunda ég þá iðju enn. Svo bara þetta hefðbundna, fjallamennska og ferðalög, það klikkar ekki. Síðan en ekki síst þá á ég sérlega fallega og skemmtilega fjölskyldu sem unir sér vel og dafnar og ég nýt þeirra forréttinda að vera afi,“ segir Kjartan þegar hann er spurður um áhugamál sín.
HA í stórsókn á sviði nýsköpunar
Kjartan segir Háskólann á Akureyri hyggja á stórsókn á sviði nýsköpunar og eflingu frumkvöðla innan skólans og einnig ríka áherslu á tengsl við atvinnulífið. „Ég vona að okkur beri gæfa til að efla samstarf við sveitarfélagið, fyrirtæki og frumkvöðlaheima Norðurlands til uppbyggingar nýsköpunar en það er sérlega skemmtilegt og áhugavert ef vel til tekst því aukin áhersla á nýsköpun leiðir til aukinnar hagsældar á svæðinu og öflugra samfélags,“ segir Kjartan að lokum.