27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Fiskrétturinn frá mömmu og pabba sem slær í gegn á Dalvík !
Þó að í dag sé sjálfur Bóndadagurinn og margir þvi með hugann við súra hrútspunga, bringukolla og sviðakjamma þá eru ekki allir dagar Bóndadagar. Við gátum ekki sleppt þvi tækifæri að setja hér inn skemmtilega frásögn af heimasíðu Samherja sem m.a. býður upp á spennandi uppskrift fiskrétt sem slegið hefur rækilega í gegn í mötuneyti Samherja á Dalvik.
„Við erum með fisk á boðstólum tvisvar sinnum í viku og það segir sig auðvitað sjálft að hráefnið hérna er alltaf ferskt sem er auðvitað mikill kostur. Fiskurinn nýtur vinsælda hjá flestum og auk þess finnst mér alltaf gaman að elda fisk,“ segir Fanney Davíðsdóttir matráður í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík, sem gefur lesendum heimasíðunnar uppskrift af dýrindis fiskrétti sem nýtur mikilla vinsælda meðal starfsfólks fiskvinnsluhússins. Að jafnaði eru um 120 manns í mat hjá Fanneyju og hennar samstarfsfólki í mötuneytinu.
Halda að mötuneytið sé háklassa veitingastaður
„Ég hef verið matráður hérna í eitt og hálft ár og líkar afskaplega vel. Nýja húsið er mjög glæsilegt og öll aðstaða starfsfólks er til fyrirmyndar. Matsalurinn er bjartur og fallegur og útsýnið er magnað, sem er stórt atriði. Það hefur meira að segja komið fyrir að erlendir ferðamenn sem eru að skoða hafnarsvæðið dragi þá ályktun að þetta sé háklassa veitingastaður, sem okkur finnst bara skemmtilegt og viss viðurkenning,“ segir Fanney.
„Pabbi og mamma eru mikið fyrir að prófa sig áfram í alls konar fiskréttum og þessi uppskrift er einmitt frá þeim. Upphaflega voru þau með skötusel en þorskhnakkar eru ekkert síðri og auk þess er mun auðveldara að verða sér úti um góða þorskhnakka allan ársins hring. Siggi yfirverkstjóri spyr okkur reglulega hvort ekki fari að styttast í þennan rétt. Hann er greinilega hrifinn, enda með vel þjálfaða bragðlauka þegar fiskur er annars vegar. Þessi réttur hefur sannarlega slegið í gegn hjá þorra starfsfólksins og það er auðvitað frábært og skemmtilegt.“
Yfirverkstjórinn fær ósk sína uppfyllta von bráðar
„Við vorum síðast með þennan rétt þegar um fimmtíu konur í sjávarútvegi skoðuðu húsið og þær rómuðu réttinn, rétt eins og starfsfólkið gerir. Það er greinilega eitthvað við þennan rétt sem gerir hann svona góðan og ég er ekki frá því að Siggi fái ósk sína uppfyllta á næstu dögum.“