Fimm ára í grunnskóla
Er vont fyrir börn að byrja fyrr í grunnskóla en vaninn er? Hugmynd okkar sjálfstæðismanna á Akureyri að bjóða upp á fimm ára bekki í grunnskóla hefur hlotið mikla athygli. Margir efast um að hún sé góð en öðrum fellur hún vel. Með þessum sveigjanleika verður til svigrúm til að taka yngri börn inn í leikskólana sem er ákveðinn kostur fyrir foreldra þeirra.
Valkostur fyrir foreldra og börn
Að barn hætti ári fyrr í leikskóla og hefji nám í grunnskóla er hugsað sem val telji foreldrar barn sitt tilbúið í þær breytingar sem því fylgir. Það er ekkert óeðlilegt að velta fyrir sér hvort þetta sé gott fyrir barnið, hvort kyrrsetan og kröfurnar séu ekki of miklar. Það höfum við líka gert. Við vitum um mikilvægi þess að taka mið af ólíkum þörfum og þroska barnanna þegar við hugsum námskrá fyrir þau. Fimm ára bekkir eru ekki nýir af nálinni á Íslandi og því komin góð reynsla á þá, við erum ekki að ana út í eitthvað sem ekki hefur verið reynt. Barn í 5 ára bekk er ekki skólaskylt og ekki verður krafist hefðbundinnar heimavinnu en foreldrar hvattir til að lesa fyrir börn sín og spjalla við þau um innihald textans. Þeir fá upplýsingar um þá vinnu sem fram fer í skólanum og eru hvattir til að tala um hana heima fyrir og sýna henni áhuga. Okkar hugmynd er ekki byggð á frekar fastmótuðu fyrirkomulagi fyrsta bekkjar eins og foreldrar þekkja það. Dagsskipulagið verður þó fest í stundaskrá sem getur tekið breytingum eftir tímabilum. Eftir að kennslu lýkur á barnið möguleika á að fara í frístund og vera þar til klukkan 16:15. Skólinn er gjaldfrjáls en greitt er fyrir vistunina.
Skólastarfið
Námskráin yrði önnur samkvæmt hugmyndum okkar. Meira yrði um útiveru og hreyfingu en nú þekkist, og áhersla lögð á skipulagðan leik þar sem sett eru markmið og ákveðnir þættir eru þjálfaðir sem ætlunin er að ná með leiknum. Meira yrði um uppbrot með frjálsum leik og verkefnin að miklu leyti hlutbundin. Lögð yrði áhersla á lestur með áherslu á þjálfun tákn og hljóðs og hlustun á sögum og ævintýrum, orðaforða og málörvun, ritun sem byrjar á teikningu og færist svo smám saman yfir í stafi og orð allt eftir stöðu hvers og eins. Stærðfræðin er hugsuð með áherslu á talnaskilning. Áhersla er lögð á skapandi starf, samvinnu og samskiptaþjálfun.
Börnin fá sinn umsjónarkennara og svo koma aðrir kennarar að eins og til dæmis íþróttakennarar. Þeim er kennt að virða reglur. Markvisst er unnið að því að efla sjálfstraust barnanna og almenna vellíðan.
Markmiðið er að hvert barn fái notið sín og í samvinnu við foreldra er unnið að því að efla alhliða þroska barnsins, andlegan og líkamlegan.
Lagt er upp úr jákvæðum og traustum samskiptum við foreldra með rafrænum skilaboðum þar sem nú hitta þeir ekki lengur kennara barnsins daglega.
Þetta eru hugmyndir okkar sem við leggjum fram í vinnu með fagaðilum, þegar kemur að því að skipuleggja starf fimm ára barnanna í grunnskólanum.
-Svava Þ. Hjaltalín grunnskólakennari skipar 17. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri