27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Fimm ákærðir vegna hoppukastalaslyssins á Akureyri
Fimm hafa verið ákærðir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi vegna fjögurra barna sem slösuðust í hoppukastala á Akureyri fyrir átján mánuðum. Forseti bæjarstjórnar á Akureyri er meðal sakborninga. Greint var frá þessu á vef RÚV fyrr í dag.
Þar segir að sakborningunum fimm sé gert að sök að hafa sýnt stórfellt aðgæsluleysi og vanrækslu við að tryggja öryggi í leiktækinu. Sjö börn voru flutt á slysadeild eftir að hoppukastalinn tókst á loft í vindkviðu, þar á meðal stúlka sem þá var 6 ára en hún slasaðist alvarlega.
„Hoppukastalinn er í eigu fyrirtækisins Perlan ehf. sem hafði gert samning við aðila frá Knattspyrnufélagi Akureyrar um leigu á kastalanum. Í ákærunni kemur þó skýrt fram að eigandi kastalans skyldi sjá um að setja hann niður og festa hann við jörðu, en þrír sakborninganna eru ákærðir fyrir að vanrækja það hlutverk sitt. Hinir tveir sakborningarnir eru í forsvari fyrir leigjandann, á vegum KA, og eru þeir ákærðir fyrir sömu sakir,“ segir á RÚV
Sakboringarnir eiga það sameiginlegt að hafa með einum eða öðrum hætti borið ábyrgð á öryggi barnanna sem voru við leik í hoppukastalanum Skrímslinu, 1. júlí 2021.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. febrúar.