Félagslynd fjallageit hugar að fjölskyldu og forystu
Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Vísindamanneskjan er Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.
„Ég hef persónulega mikinn áhuga á að kynnast annarri menningu og það endurspeglast líklega í mínum samstarfsverkefnum. Ég er starfandi í nokkrum alþjóðlegum rannsóknarhópum, einum sem rannsakar störf og starfsaðstæður skólastjóra í yfir 40 löndum, öðrum sem er samstarfshópur Norðurlandanna og Grænlands um rannsóknir á skólastjórnun á norðurslóðum og þeim þriðja með rannsakendum frá Svíþjóð og Bandaríkjunum um menntaforystu skólaþjónustu sveitarfélaga og þann stuðning sem þau veita skólum sem búa við miklar áskoranir í skólastarfinu.“ segir Sigga Magga, líkt og hún er kölluð, um hvernig starfið endurspeglar áhugamál hennar.
Sigga Magga ólst upp í Ystu-Vík í Grýtubakkahreppi. Hún tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri og fór þaðan til Danmerkur í alþjóðlegan kennaraskóla. „Eftir námið í Danmörku kom ég aftur til Íslands og fór að kenna, bæði í fá- og fjölmennum grunnskólum ásamt því að vera skólastjóri. Áhugi minn á forystu í menntamálum er alltaf framarlega þegar kemur að mínum verkefnum og það stýrði vali mínu á efni í meistararitgerð sem fjallaði um forystu skólastjóra og annarra hópa skólasamfélagsins í tengslum við skólaþróun. Henni lauk ég árið 2009 frá Háskólanum á Akureyri. Þessi áhugi minn leiddi mig svo í doktorsnám við Háskóla Íslands þar sem ég rannsakaði menntaforystu sveitarfélaga og kláraði ég það nám í júní á síðasta ári.“
Orka sem umbreytist í þekkingu
Sérhæfing Siggu Möggu þegar kemur að rannsóknum er á sviði stjórnunar og forystu í menntavísindum, þá sérstaklega störf skólastjóra, „það hef ég rannsakað sérstaklega í samhengi við innleiðingu þróunarstarfs í læsi og hvernig stuðning skólastjórar fá til að sinna sínu starfi sem best og hver veitir þann stuðning,“ segir Sigga Magga frekar um sínar rannsóknir.
Starf Siggu Möggu felst töluvert í kennslu og þá kennir hún einkum fög sem tengjast hennar sérsviði í rannsóknum. Þar má einkum nefna námskeið um stjórnun og forystu í skólum og annað um starfsþróun, forystu og bekkjarstjórnun. Hún kennir fleiri námskeið og segir að skemmtilegt sé að kenna þau öll. „Kennaradeild er með lotunám sem þýðir að stúdentar vinna sjálfstætt á milli þess sem þau koma í lotur og þá þykir mér mikilvægt að þegar komið er í lotur séu til staðar áþreifanleg verkefni og viðfangsefni. Allra skemmtilegasta við kennslu er að sjá framfarir stúdenta, verða vitni að því hvernig orkan umbreytist í nýja þekkingu og sjá framfarir hjá stúdentum,“ segir Sigga Magga um kennsluna.
„Ég hef gaman af teymisvinnu líkt og sjá má á hversu mörg mín rannsóknarverkefni eru unnin í hóp og ég finn líka hvað tækifæri til að leiðbeina í grunn- og meistaranáms verkefnum eru gefandi, eiga samræður við nemendur um þeirra viðfangsefni og sjá þá blómstra gegnum ritgerðarvinnuna,“ bætir Sigga Magga við, spennt yfir allri samvinnunni sem starfið hefur upp á að bjóða.
Sækir slökun í náttúruna og samveru með fjölskyldu og vinum
Sigga Magga er mikil útivistarmanneskja og vílar ekki fyrir sér gönguferðir upp á hálendið með vinum og vandamönnum. Hún segist vera mikil fjölskyldumanneskja og á fimm börn auk þess sem eitt barnabarn er komið í hópinn. „Ég elska að fá stórfjölskylduna í heimsókn, ég á fjórar systur og saman eigum við jörðina Ystu-Vík þar sem við ólumst upp og erum að gera húsin upp.“
Sigga Magga hefur því séð börn sín fara í gegnum skólakerfið, starfað við það og rannsakað og því ekki að undra að hún brenni fyrir forystu í skólakerfinu.
Aðspurð hvað þurfi að rannsaka frekar þá telur Sigga Magga brýnt að skoða meira forystu kennara. „Þeirra þáttur sem forystuafl innan skólans hefur verið allt of vanmetinn og lítið rannsakaður. Kennarar eru alls staðar að veita forystu í skólastarfinu og því betur sem við, kennarar sjálfir og önnur í skólasamfélaginu, skiljum kennaraforystu í íslensku samfélagi ætti okkur að ganga betur að veita börnum og ungmennum góða menntun.“
„Núna er ég meðal annars að endurtaka rannsókn sem ég gerði fyrir nokkrum árum um forystu skólastjóra og skólasamfélagsins alls, kennara meðal annarra, og tengsl við skólaþróun. Slíkar endurteknar rannsóknir eru fremur fátíðar en geta gefið okkur skýrari mynd af því hvernig þróunarverkefnum og innleiðingarstarfi vegnar til lengri tíma og hvað gerist í skólasamfélaginu þegar nýir stjórnendur og nýtt fólk tekur smám saman við. Það er brýnt að skilja það betur til að hægt sé að grípa til markvissari aðgerða til að viðhalda og efla góðu starfi. Þá brýnir Sigga Magga fyrir fólki að skoða tækifærin sem felast í að starfa í skólum og segist munu taka vel á móti fólki í námið.
Mikilvægt er að gefa sér þó tíma til að slaka á og að lokum segir Sigga Magga: „Uppbyggingarstarfið með fjölskyldunni að Ystu-Vík er gefandi og ekkert betra en að fara þangað og slaka á í dagsins önn og jafnvel skreppa upp á hnjúkinn.“
Heilræði: Það er leikur að læra.
Þú getur séð umfjöllun um Vísindafólkið okkar á Instagram HA: haskolinnaakureyri