Félagar í Lionsklúbbnum Hæng gefa 80 viðareldunarofna til Úkraínu

Samþykkt var á fundi Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri að gefa 50 viðareldunarofna til Úkraínu.  Á myn…
Samþykkt var á fundi Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri að gefa 50 viðareldunarofna til Úkraínu. Á myndinni eru Þórarinn Egilsson, Snorri Guðvarðarson sem var gestur á fundinum, Jón Halldórsson formaður og lengst til hægri er Hjálmar Árnason. Mynd: Aðsend

„Þetta er mjög þarft og gott verkefni og við erum ánægðir með að geta lagt því lið,“ segir Jón Halldórsson formaður Lionsklúbbsins Hængs á Akureyri. Um 40 félagar eru í klúbbnum.

Klúbburinn hefur ákveðið að gefa 50 viðaeldunarofna til Úkraínu og þá hafa einstaka félagar tekið ákvörðun um að bæta um betur og kaupa sjálfir 30 ofna, þannig að Hængur leggur 80 viðarofna til í söfnun sem Lionsfélagar í Evrópu standa að.  Jón segir að þörfin sé mikil og vaxandi eftir nærri tveggja ára styrjöld í Úkraínu, þar sem heimamenn verjast árásum Rússa, sé staða innviða víða í landinu mjög bágborin.

Á síðasta starfsári stóðu finnskir Lionsfélagar fyrir söfnun til kaupa á litlum rafstöðvum og tóku Hængsfélagar þátt í þeirri söfnun en hún náði til 13 Evrópulanda. Keyptar voru í allt 2260 rafstöðvar og fengu yfir 300 þúsund úkraínsk börn ljós og hita í kjölfarið. „Það var mikil þörf fyrir rafstöðvarnar í fyrra , enda víða rafmagnslaust. Nú söfnum við til kaupa á viðareldavélum sem smíðaðar eru í Finnlandi og sendar til Úkraínu. Við munum leggja til 80 viðarofna sem örugglega koma einnig að góðum notum,“ segir Jón.

Hagkvæmir ofnar og gagnast vel

Hver viðareldunarofn kostar 23 þúsund krónur og er hannaður í Finnlandi. Þessir ofnar þykja mjög hagkvæmur á öllum sviðum. Auðveldir í framleiðslu og í flutningum, gott að sinna viðhaldi og þá er gott að nota hann, sem auðvitað er mest um vert. „Þessir ofnar uppfylla allar kröfur sem gerðar eru, hann er afkastamikill og úr ryðfríu stáli, yfirborðið er stórt og því er mjög auðvelt að nota hann. Þetta er frábær finnsk hönnun sem tekur mið af öllu, þeir pakkast vel í gáma sem auðveldar flutning á leiðarenda og gagnast svo einkar vel þangað komnir,“ segir Jón.

Erfitt um vik að elda mat

Hann segir verkefið m.a. til komið því mikill skortur sé á hita og díselolíu sem gerir erfitt um vik að elda mat. Ástandið sé einna verst í suðausturhluta Úkraínu og þangað muni flestir ofnarnir fara. Stefnt er að því safna á bilinu frá 500 ofnum og upp í 1000 ef vel gengur. Allir Lionsklúbbar á landinu geta tekið þátt. „Klúbbarnir eru misstórir og eru flestir líka að sinna verkefnum í sinni heimabyggð. Það á við um okkur Hængsmenn líka, við erum með stórt verkefni í gangi núna hér á Akureyri en það er vissulega líka gefandi fyrir okkur að geta lagt þessu verkefni lið að aukið.“

Nýjast