Fals íslenskra stjórnmálamanna og bæjarstjórnarkosningar á Akureyri

Jón Hjaltason
Jón Hjaltason

Það er merkilegt hvað íslenskir stjórnmálamenn geta lagst lágt. Aldrei játa þeir óskammfeilni, þvert á móti hreykja þeir sér af hreinni samvisku og þegar eitthvað er hermt upp á þá bera þeir öllu við, oftast þó samvinnubúskap með öðrum stjórnmálaflokkum.

Því skal ekki neitað að stundum bera þeir á borð marktækar afsakanir. En hvað skal segja þegar allir hinir kjörnu pólitíkusar taka í sama streng um eitt og sama málið en megna samt ekki að hrinda í framkvæmd fögrum fyrirheitum?

Já, ég ætla að endurtaka þetta. Hvað er til ráða þegar stjórnmálamenn - sama í hvaða flokki þeir eru - þylja allir sama óðinn en ekkert gerist? Eða hver á meðal þeirra er andstæðingur þess að hleypa almenningi að borðinu, eins og pólitíkusarnir sjálfir orða göfuga hugsjón sína, sem þeir vita að fellur í kramið? Af hverju er það svo að andstaða við þjóðaratkvæði er engin í orði, sama hver flokksstimpillinn er, en blossar hins vegar upp jafnskjótt og sest er á ráðherrastól? En eins og reynslan hefur sýnt okkur hafa ráðherrar – sama úr hvaða flokki þeir tala eða hvað þeir hafa sagt áður sem stjórnarandstæðingar – engar mætur á þjóðaratkvæði.

Hvernig skyldi standa á þessari eigum við að segja köflóttu afstöðu sem ræðst bersýnilega ekki af stjórnmálaskoðunum – né sannfæringu ef út í þá sálma er farið –  heldur valdastöðu í samfélaginu?

Því miður endurspeglast þessi tvöfeldni alþingismanna í bæjarstjórn Akureyrar. Vissulega vilja okkar góðu bæjarfulltrúar í orði hleypa okkur að ákvarðana-borðinu en í verki aðeins á fjögurra ára fresti.

Er ekki orðið tímabært að breyta þessu? Hvað mælir gegn því að við,  bæjarbúar sjálfir, fáum að ráða okkar málum meira en hingað til hefur tíðkast? Höfum þessa spurningu í huga í komandi bæjarstjórnarkosningum.

 

Nýjast