Fagnar uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi
Bæjarráð Akureyrar fagnar því að horft sé til uppbyggingar á líforkuveri á Dysnesi við Eyjafjörð og lýsir yfir fullum stuðningi við verkefnið.
Kristín Helga Schiöth framkvæmdastjóri Líforkuvers ehf. mætti til fundar við ráðið og kynnti stöðu mála. Pétur Ólafsson hafnastjóri og Dan Jens Brynjarsson sviðsstjóri fjársýslusviðs sátu einnig fund bæjarráðs.
Akureyrarbær hefur um margra ára skeið unnið markvisst að því í samvinnu við aðra aðila s.s. sveitarfélög á Norðurlandi eystra, SSNE, Hafnasamlag Norðurlands, Vistorku og ríki að líforkuver verði byggt upp á Dysnesi við Eyjafjörð. Í líforkuveri yrði safnað saman lífrænu efni og úrgangi sem félli til á einum stað til úrvinnslu í verðmætar afurðir. „Sameiginleg sýn okkar er að á Dysnesi verði að veruleika mikil, metnaðarfull, fjölbreytt og græn atvinnustarfsemi,“ segir í bókun bæjarráðs vegna málsins.