30. október - 6. nóember - Tbl 44
Eyjafjarðarsveit veitir styrki vegna uppsetningar á varmadælum
„Vonandi geta einhverjir nýtt sér þessa styrki og þessa lausn sem notuð hefur verið annars staðar og gefið góða raun,“ segir Finnur Yngvi Kristinsson sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit. Sveitarfélagið hefur boðið upp á fjárstyrk til eigenda fasteigna í Eyjafjarðarsveit sem vilja setja upp varmadælur sem draga úr notkun raforku til upphitunar á íbúðarhúsnæði. Miðað er við fasteignir þar sem er föst búseta og dreifikerfi hitaveitu nær ekki til.
Verkefnið hófst í fyrra og segir Finnur að þegar hafi nokkur heimili nýtt sér styrkinn. „Það býr töluverður fjöldi íbúa utan dreifikerfis hitaveitu í dag, en að sjálfsögðu bindum við vonir við að dreifikerfið stækki í framtíðiðinni þegar Norðurorka hefur náð að tryggja sér nægilegt vatn til að efla hitaveituna á þjónustusvæði sínu öllu,“ segir hann.
Styrkur rennur til þeirra eigenda fasteigna sem hyggjast ráðast í framkvæmdir og setja upp varmadælu til orkusparnaðar og er skilyrði að umrædd fasteign njóti þegar niðurgreiðslu húshitunar og framkvæmdin fái styrk frá Orkustofnun.
Styrkur fæst eingöngu til kaupa á varmadælu og efni tengdu henni innan tæknirýmis. Ekki er veittur styrkur til efniskaupa á lögnum í húsi eða breytingar á lögnum sem fyrir eru utan tæknirýmis þrátt fyrir að það séu afleiðingar af uppsetningu varmadælunnar. Eyjafjarðarsveit styrkir eiganda fasteignar um allt að 50% af efniskostnaði samkvæmt ofangreindu sem fellur á eiganda fasteignar eftir að styrkur frá Orkustofnun hefur verið greiddur og aðrar niðurgreiðslur sem við eiga, þó getur styrkur frá sveitarfélaginu aldrei orðið hærri en 500.000 krónur.