Eyjafjarðarbraut vestri færð austur fyrir Hrafnagil

Séð yfir vegstæðið.    Drónamynd  Hörður Geirsson
Séð yfir vegstæðið. Drónamynd Hörður Geirsson

Á heimasíðu Vegargerðarinnar er sagt ítarlega  frá gangi mála við lagningu nýs vegar  við Hrafnagil, en eins og kunnugt er og blaðið sagði frá á sínum tíma verður hinn nýji vegur fyrir austan ört stækkandi byggðina við Hrafnagil.   Stefnt er að verklokun í júlí n.k sumar.

Frásögnin á áðurnefndri síðu Vegagerðar er hér á eftir:

,,Verkið felst í nýbyggingu Eyjafjarðarbrautar vestri á um 3,11 km kafla fram hjá þéttbýlinu við Hrafnagil. Einnig er innifalið í verkinu bygging heimreiða og tenginga, samtals um 0,25 km. Eyjafjarðarbraut vestri, Miðbraut og tengingar inn í þéttbýlið verða 8.0 m breiðar með bundnu slitlagi. Heimreiðar verða 4,0 m breiðar með bundnu slitlagi.

Þéttbýlið í Hrafnagili hefur byggst hratt upp á undanförnum árum. Síðustu aldamót bjuggu um 135 manns í þorpinu, íbúar voru orðnir 260 fyrir fimm árum en eru í dag um 350 (heimild: Hagstofan).

Núverandi þjóðvegur liggur í gegnum þorpið og óskaði sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit eftir því að vegurinn yrði færður út fyrir þorpið, fyrst og fremst til að auka umferðaröryggi enda er hraði umferðar í gegnum þorpið oft mikill. Meðalumferð á ári (ÁDU) um Eyjafjarðarbraut vestri árið 2020 var um 1470 bílar á sólarhring.

Með auknum íbúafjölda hefur uppbygging íbúðahúsnæðis í þorpinu vaxið. Land sem verður til við færslu þjóðvegarins er dýrmætt byggingarland sem mun stuðla að enn meiri uppbyggingu í þorpinu.

Framkvæmdir við nýja veginn hófust sumarið 2022. Nýja veglínan sveigir austur fyrir þorpið og kemur til með að liggja milli þess og Eyjafjarðarár. Fyrsta verkefni verktakans var að setja fyllingar og farg á hina nýju veglínu. Þar sem vegurinn mun liggja eftir sléttu landi á eyrum Eyjafjarðarár, þar sem jarðvegur er bæði sendinn og leirkenndur, var nauðsynlegt að hann fengi að síga í dágóðan tíma.

Vinnu við fyllingar, fláafleyga og ræsalögn er lokið. Lítilsháttar vinna er eftir við styrktarlag og grjótvörn, sem klárast vorið 2024. Framkvæmdir hafa legið niðri um tíma vegna kulda og fara að öllum líkindum ekki af stað aftur fyrr en sól hækkar á lofti eftir áramót.

Nýjast