Eyðir barnið þitt of miklum tíma á netinu?

Kara Hildur Axelsdóttir
Kara Hildur Axelsdóttir

Mikil skjánotkun barna og unglinga er vaxandi áhyggjuefni í samfélaginu. Mörg börn eyða miklum tíma vafrandi um á internetinu eða liggjandi
fyrir framan sjónvarpið í stað þess að vera með vinum eða fjölskyldu. Tölvuleikir, sem margir eru beintengdir netinu, eru einnig vinsælir meðal
barna og unglinga. Auk þess eru margir þessara tölvuleikja bannaðir innan 18 ára aldurs. Með einu snjalltæki er hægt að gera ótrúlega mikið og finna upplýsingar um næstum allt.

Ýmsar hættur geta orðið á vegi barns sem vafrar um eftirlitslaust á netinu. Jafnframt er ekki talið hollt fyrir ung börn að vera lengi fyrir framan skjá og það að eyða miklum tíma á netinu getur hamlað eðlilegum félagsþroska þeirra. Börn á aldrinum 5-16 ára eyða að meðaltali um 6 og hálfri klukkustund fyrir framan skjá á dag, unglingar jafnvel meira en 9 klukkustundum.

Vandamál vegna tölvunotkunar geta verið af ýmsum toga. Börn geta einangrað sig félagslega og fundið aðeins fyrir vellíðan fyrir framan tölvuskjá. Sum börn vanrækja fjölskyldu sína og vini. Algengt er inn á heimilum að síminn eða tölvan tefji til dæmis það eitt að setjast við matarborðið.
Vandamálin eru mis alvarleg en mikilvægt er að ræða þau og komast að lausn til þess að laga þau. Hvort sem um vandamál er að
ræða eða ekki er mikilvægt að búa til reglur og tímamörk um skjánotkun.

Að hafa ákveðinn tíma á dag fyrir framan skjá er nauðsynleg regla fyrir alla. Fyrir ung börn er líka gott að hafa ákveðna daga í viku þar sem engin skjánotkun er leyfð. Gott er að hafa svefnherbergi og matarborð sem skjálausa staði og á nóttunni er slökkt á tölvum og símum. Best er að reglurnar gildi alls staðar, heima, í skólanum og hjá vinum. Mikilvægt er að kenna börnum strax hvað má og hvað má ekki á netinu. Netið er til margs gagnlegt og er nauðsynlegur hluti af lífi langflestra í dag. Gott er að kynna sér notkun barnanna sinna á netinu og vera virkir þátttakendur í lífi þeirra þar.

Einnig þarf að brýna fyrir börnum að veita aldrei persónulegar upplýsingar í gegnum netið og aldrei hitta neinn sem þau þekkja ekki og hafa bara talað við í gegnum netið. Börnum er kennt að tala ekki við ókunnuga, gefa ókunnugum ekki upplýsingar eða hleypa þeim inn séu þau ein heima.
Margir foreldrar átta sig hins vegar ekki á því að sömu reglur þurfa að gilda á netinu. Að vera með börnunum í tölvunum og símunum og kenna
þeim hvað er skynsamlegt og hvað er rangt er því mikilvægt og gefur foreldrunum einnig tækifæri til þess að læra með barninu sínu og njóta þess að eiga samverustund.

Nýjast