,,Ert þú Palli Rist?"

Hreiðar Eiríksson átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Hreiðar Eiríksson átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

,,Ert þú Palli Rist?" sagði mjóslegin rödd að baki mér þegar ég gekk norður Brekkugötuna.  Ég sneri mér við og sá lítinn dreng sem stóð inni í garði við snyrtilegt hús. Ég svaraði og gekkst fúslega við því að vera ekki Páll Rist.  Við tókum svo stutt spjall þarna saman sveitungarnir um hugarefni dagsins, einkum þó þau sem voru unga manninum efst í huga.

Samtal okkar sveitunganna átti sér stað þegar ég var lögreglumaður og var á leið úr varðgöngu í miðbænum og í átt að lögreglustöðinni við Þórunnarstræti. Þessar varðgöngur voru fastur liður í löggæslunni. Fyrir hádegi alla virka daga fór lögreglumaður á varðgöngu í miðbænum og annar eftir hádegi. Hlutverk hans var að hyggja að því hvernig menn legðu bílum sínum og gæta þess að gangi þar allt í vil, svo vitnað sé í Bastían bæjarfógeta Kardemommubæjarins. Annar lögreglumaður gekk svo um miðbæinn eftir hádegi sömu erinda. Á föstudags- og laugardagskvöldum fóru tveir lögreglumenn í varðgöngu fyrir miðnætti og aðrir tveir eftir miðnætti og fram undir lokun skemmtistaða.

Ólafur Ásgeirsson, þáverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn, fullyrti það við okkur yngri lögreglumennina að varðgöngur lögreglumanna í miðbænum væru stórvirkasta úrræði sem völ væri á til að tryggja öryggi okkar við störf. Samvera lögreglu og borgara í daglegu lífi beggja ásamt samtali þeirra á milli byggði upp skilning og virðingu sem svo skilaði sér til baka í formi öryggis og trausts milli almennings og löreglu þegar að því kæmi að eitthvað bjátaði á.

Nú eru engar varðgöngur.  Ekkert samtal nema þegar eitthvað hefur farið úrskeiðis. Enginn Steini Pé í skólunum.

Hefur okkur tekist vel til?

 

 

Nýjast