Er munur á þróun og stöðugleika?
Ég hef þá bjargföstu trú að verðmætasköpun sé hornsteinn hvers samfélags. Án hennar er samfélagið ekki sjálfbært og of háð utanaðkomandi áhrifum sem erfitt getur reynst að hafa áhrif á. Ég hef stundum velt því fyrir mér að þegar þrengir að, eins og til dæmis eftir bankahrunið og svo núna í kjölfarið á Covidfaraldrinum, þá fara sumir að notast við einhverskonar frasa svona til að tala sig í gegnum ástandið.
Hver kannast ekki við setningar eins og „eflum nýsköpun“, „aukum samtalið“, „ snúum bökum saman“...Allar góðra gjalda verðar og þið megið ekki skilja mig þannig að ég vilji ekki framþróun og sé á móti því að við lítum á nýja og ferska hluti til að auka hagsæld og ánægju.
Þvert á móti vil ég stöðuga þróun, að við séum alltaf að leita tækifæra til að gera betur! Ég bara velti fyrir mér af hverju það sé stundum sett þannig fram að annað þurfi að útiloka hitt? Ég held að styrkur hvers samfélags felist í fjölbreytni, þ.e. að séu stoðir samfélagsins of fáar (lítil fjölbreytni í atvinnu og menningu) þá sé margföld hætta á illa fari þegar þrengir að líkt og við höfum séð dæmi um núna t.d. í kjölfarið á Covid. Þess vegna er mikilvægt þegar slíkt gerist að hvort tveggja sé gert, hlúð að því sem fyrir er og leitað sé nýrra tækifæra sem gætu aukið fjölbreytni og þannig styrkt samfélagið.
Það sem ég er að reyna að benda á með þessum orðum er það að við megum ekki leyfa okkur að snúa baki við því sem þegar er búið að byggja upp í samfélaginu okkar vegna þess að eitthvað nýtt hljóti að vera miklu betra fyrir alla. Er það endilega þannig? Er það alltaf best að henda öllu frá sér sem maður hefur verið að gera til að freista gæfunnar í einhverju öðru?
Auðvitað er það stundum þannig að ekki verður áfram haldið í því sem menn hafa verið að sinna og þeir eru tilneyddir að snúa sér að einhverju öðru til að hafa í sig og á. En ég held að oft megi gera svo miklu betur með því að hlúa að því sem þegar er til staðar.
Kannski er ég haldinn eihverri fortíðarþrá en þó að ég sé ekkert rosalega gamall þá man ég eftir því að hér á norðurlandi var ýmislegt framleitt sem ekki er gert lengur. Hér voru framleidd, föt, húsgögn, efnavörur og svo ótal margt fleira. Þessi starfsemi hefur svo látið undan síga og færst til landa þar sem laun eru lægri, aðbúnaður og réttur þeirra sem vinna við framleiðsluna af öðrum toga. Þegar þessar ákvarðanir voru teknar á sínum tíma þ.e. að hætta þessari framleiðslu hér þá voru þær „réttar“ þ.e. við gætum haft aðgang að þessari vöru fyrir minni pening og allir sáttir?
Það er nefninlega stundum þannig að það sem virðist hárrétt á einhverjum tímapunkti er svo kannski bara alls ekki rétt þegar frá líður.
Nú er ég ekkert að segja að hér hefðum við átt að halda áfram að sauma úlpur eða framleiða málningu, sama hvað. Ég er bara að benda á að ef við gætum ekki að okkur þegar við tökum ákvarðanir sem geta snert samfélagið okkar þá getum við lent upp á skeri, skeri fjölbreytisnauðs samfélags sem molnar undan í fyllingu tímans.
Eitt er gott að hafa í huga þegar maður er hluti af samfélagi! Allir einstaklingar eru mikilvægir, það stoðar lítt að benda á einhvern annan þegar hlutirnir eru ekki eins og maður vill hafa þá. Það er mikilvægt að allir leggi sitt að mörkum og að saman sköpum við það samfélag sem við viljum búa í.
Og að lokum, vertu alltaf besta útgáfan af sjálfum þér, þú getur valið þér samstarfsfélaga, vini og kunningja, sá eini sem þú losnar ekki við ert þú sjálfur þannig að það er eins gott að standa sig í því sem maður gerir.
Ég skora á Berglindi Kristinsdóttir í að skrifa pistil í næsta blað.