Enn vantar RNP aðflug við Akureyrarflugvöll, úr suðri
Eins og fram hefur komið er aðflug úr suðri að Akureyrarflugvelli verulega ábótavant, einkum fyrir farþegaþotur s.s. easyJet, Icelandair, Play. Heppni með veður ræður hreinlega of miklu um hvort ljúka takist flugi við erfið veðurskilyrði í norðanátt.
Fyrir skömmu mátti engu muna að vél frá easyJet gæti ekki lent á flugvellinum því það gerði él hér um stund, en eftir nokkuð hringsól gátu flugmenn skellt sér niður til lendingar. Slikt er kostnaðarsamt, eldsneytiseyðsla er mikil en ef hér væri búið að klára það sem upp á vantar með RNP aðflugið hefði verið hægðarleikur að lenda á flugvellinum. Akureyrarflugvöllur er varaflugvöllur fyrir millilandaflug á landinu og því mætti áætla að mikilvægt væri að klára það sem út af borðinu stendur. Tímamörk Isavia til að ljúka útgáfu RNP flugferils við Akureyrarflugvöll voru 25. jan 2024, samkvæmt gildandi reglugerð.
En hvað er það sem vantar til þess að lagfæra stöðuna, hvað er þetta RNP sem rætt er um? Vefurinn hafði samband við Víði Gíslason, en hann þekkir afar vel til þessara mála og bað hann um að útskýra um hvað málið snýst?
Víðir Gíslason
,,Eins og fram hefur komið er skylda Isavia að hanna RNP aðflugsferla við aðstæður líkt og við Akureyrarflugvöll og það hefur legið fyrir í nokkur misseri. Þetta kemur ekki úr lausu lofti. Alþjóðaflugmálastofnunin hefur haft þessa tækni á stefnuskrá frá árinu 2009. Í kjölfarið hafa bandarísku og evrópsku flugmálastjórnirnar sett umgjörð sem býður nýjar og öruggari lausnir við flugleiðsögu Grunnurinn er þróuð útgáfa af gervihnattaleiðsögu.“
Viðir bætir við, ,,Í maí 2020 fullgilti samgönguráðherra bindandi reglugerð um flugleiðsögu, sem Isavia ber að fara eftir. Þar kemur fram að innleiðingu RNP aðfluga, við aðstæður líkt og í Eyjafirði átti að ljúka ekki seinna en 25. janúar 2024. Því miður náðist það ekki. Það er bagalegt fyrir hlutverk flugvallarins sem varaflugvallar. Einnig getur það hamlað millilandaflugi easyJet, eins og dæmi er um. Í slíkum rekstri verður ekki til lengdar stólað á heppni með veður, ekki síst ef úreltir flugferlar eru í boði. Núverandi aðflug var mikil framför árið 1982, en er óboðlegt í dag. Isavia greindi valkosti fyrir bætt aðflug úr suðri í apríl 2022. Tvær útgáfur af RNP flugferlum uppfylla þarfir, en gera mismunandi kröfur um búnað flugvéla og þjálfun áhafna. Í dag er ljóst að báða ferlana þarf til að veita viðunandi aðgengi fyrir þá flugrekendur og mismunandi flugvélategundir sem nýta völlinn. Samkvæmt greiningunni er kostnaður innan við 25 milljónir.“
Hver verður ávinningurinn Víðir? ,,Í dag liggja aðflugslágmörk í 1250 fetum við Hrafnagil, í ca 8 km fjarlægð frá brautarenda. Nýjir RNP ferlar gætu fært lágmörkin í allt að 400 - 500 fet, ca 2 km frá brautarenda, sem eykur verulega líkur á að lending heppnist í lélegu skyggni. Niðurstaðan er verulega bætt aðgengi úr suðri og aukið öryggi, sem næst með þrívíðum flugferlum sem ekki eru til staðar í dag.“