Líkan af „Stellunum“ afhjúpað við glæsilega athöfn
Líkan af systurskipunum Sléttbak EA 304 og Svalbak EA 302 var afhjúpað og afhent við hátíðlega athöfn í matsal Útgerðarfélags Akureyringa, í gær, nákvæmlega hálfri öld eftir að þessi glæsilegu skip komu í fyrsta sinn til Akureyrar.
Að smíði líkansins stendur hópur er kallar sig „Stellurnar,“ sem er áhugahópur um varðveislu sögu ÚA togara. Líkanið smíðaði Elvar Þór Antonsson á Dalvík.
Sigfús Ólafur Helgason safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri er hvatamaður að verkefninu. Hann segir að sú hugmynd hafi kviknað sl. vetur að setja á laggirnar söfnun til að standa straum af kostnaði við að smíða líkan af skipununum. Tímasetningin á afhjúpun líkansins hafi verið einstaklega ánægjuleg og táknræn.
Stellunafnið á sér uppruna í nöfnum skipanna áður en þau urðu að Svalbak og Sléttbak, þegar ÚA keypti þau frá Færeyjum.
Fjölmenni sótti hátíðina í ÚA salnum, svo sem sjómenn sem voru á Stellunum. Einnig færeyskt áhugafólk um Stellurnar, sem gerði sér ferð til Akureyrar til að taka þátt í viðburðinum.
Karlakór Akureyrar Geysir söng, sjómannalög, ræður voru fluttar m.a ávarpaði bæjarstjórinn i Klakksvík samkomuna gegnum fjarfunabúnað en Stellurnar voru gerðar út þaðan áður en skipin voru seld til ÚA. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri talaði einnig sem og Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja sem bauð gesti velkomna og þakkaði Stellunum fyrir frumkvæði að smíði glæsilegs og vandaðs líkans. Freysteinn Bjarnason rifjaði upp en hann var yfirvélstjóri á Svalbak.
Þorleifur Ananíasson varð heiðraður af hópnum sem að byggingu líkansins stóð en hann vann á svokölluðum launakontor ÚA og eins og Sigfús Ólafur sagði við það tilefni ,,Á einn stað fórum við allir sjómenn daginn sem skipin komu að landi, en það var á svokallaðan launakontórinn til að fá einhverja aura, og til að halda því til haga skorti þar aldrei á og staðfesti það sem allir vissu, fyrirtækið var einstaklega vel rekið.
Á kontórnum mætti maður yfirleitt kl 13.00 og fyrirfram var búið að ákveða hvaða greiðsla yrði innt af hendi miðað við afla skipsins sem maður var á og þetta gekk nánast alltaf á vandkvæða. Stundum kom það fyrir að manni vantaði kannski aðeins meiri aur en í boði var í það skiptið, og þá voru stundum samningaviðræður hafnar og oftast fór maður sáttur heim.
Einn er þó sá maður sem ég veit að við sjómenn allir áttum alla tíð gott með að leita til á kontórnum og fundum aldrei annað en hlýtt viðmót, skilning og samstöðu með okkur, og nú á þessum tímamótum sem við stöndum á í dag langar okkur fyrrum Ú.A. sjómönnum að segja einfaldlega við þennan mann.
Takk fyrir viðmótið og vinarþelið sem þú sýndir okkur alla tíð.
Vil ég biðja Þorleif Ananíasson fyrrverandi skrifstofumann á launakontór Ú.A. að koma hingað til mín og veita hér viðtöku smá þakklætisvotti frá okkur fyrrum Ú.A. sjómönnum. Við fyrrum Ú.A. sjómenn minnumst áranna sem við áttum saman því sannarlega vorum við samstarfsfélagar þínir og viljum nú segja það bara beint við þig.
Þorleifur Ananíasson.
Kæri vinur. Takk fyrir okkur. Hafðu hjartans þakkir fyrir.“