Enginn annar staður en háskólasvæðið kom til greina

Frá afhendingu bekkjar í minningu Ólafs Búa Gunnlaugssonar sem lengi starfaði við Háskólann á Akurey…
Frá afhendingu bekkjar í minningu Ólafs Búa Gunnlaugssonar sem lengi starfaði við Háskólann á Akureyri. Eyjólfur Guðmundsson rektor lengst til vinstri, aftast eru þær Karen Lilja og Arna Sigríður Gunnlaugsdætur og Eydís Unnur Jóhannsdóttir. Frá vinstri sitja Ólafur Búi Ólafsson, Agnes Jónsdóttir, Gunnlaugur Búi Ólafsson og Elvar Búi Gunnlaugsson. Bekkurinn er staðsettur í námunda við Íslandsklukkuna. Mynd/MÞÞ

mth@vikubladid.is

„Stundum var haft á orði hjá okkur í fjölskyldunni að HA væri þriðja barnið hans, svo umhugað var honum um velgengni skólans,“ sagði Agnes Jónsdóttir sem ásamt sonum sínum, Gunnlaugi Búa og Ólafi Búa og fjölskyldum þeirra, færði Háskólanum á Akureyri bekk að gjöf til minningar um mann sinn og föður þeirra,  Ólaf Búa Gunnlaugsson.

Ólafur Búi starfaði um langt árabil við Háskólann á Akureyri, hann lést síðla árs 2019.  Bekkurinn stendur á góðum útsýnisstað í námunda við Íslandsklukkuna með fallegu útsýni yfir bæinn og Eyjafjörð. Á bekkinn er letrað að Óli hafi unnið af ástríðu að uppbyggingun og rekstri Háskólans á Akureyri.

Naut þess að fara til vinnu á hverjum degi

Agnes sagði við afhendinguna að Óli hafi notið þess á hverjum degi að halda til vinnu, þar hafi hann átt margar góðar stundir og í háskólanum átti hann trausta vini. Hún sagði að þegar ákveðið hefði verið að kaupa bekk til minningar um hann hefði enginn annar staður komið til greina til að koma honum fyrir á en háskólasvæðið. Leyfið var auðfengið. „Og því erum við hér á þessum stað í þessu fallega veðri, til að heiðra minningu Óla Búa og búa til stað þar sem bæjarbúar og gestir okkar geta sett sig niður, hvílt lúin bein og notið útsýnis. Eins er þetta upplagður staður til að setjast niður, hugsa til Óla og eiga notalegt spjall,“ sagði Agnes og bætti við að Óli hefði haft afskaplega gaman af því að spjalla við fólk, „og ég hugsa að það hafi ekkert breytst.“

Eyjólfur Guðmundsson háskólarektor tók við gjöfinni og nefni að gott yrði til framtíðar að setjast niður á bekkinn, njóta útsýnis og leysa málin. Hann minntist þegar að oft þegar leysa þurfti úr hinum ýmsu málum sem upp komi hafi verið háttur Óla Búa að fara með fólk í bíltúr og ræða málin. Það ætti líkast til ekki upp á pallborðið nú um stundir, þegar spara þyrfti kolefnissporin og því frábært að fara í göngutúra í staðinn og setja til skrafs og ráðagerða á bekkinn góða.

Nýjast