Endurnærir sál og líkama að mynda lömbin
Íslensk lömb - Lambadagatal 2022 er komið út í áttunda sinn. Dagatalið er í A4 stærð og auðvelt að hengja það upp hvar sem hentar. Sem fyrr prýða dagatalið stórar andlitsmyndir af fallegum, marglitum, nýlega fæddum lömbum úti í náttúrinni.
Ragnar Þorsteinsson í Sýrnesi í Aðaldal, sauðfjárbóndi, útgefandi og höfundur lambadagatalsins segir að allar myndir hafi verið teknar í sauðburði á liðnu vori. „Það er ansi krefjandi og tímafrekt að taka myndir af lömbum líkt og gildir um annað ungviði,“ segir Ragnar. Sauðburður er í fullum gangi og oft ekki mikill tími aflögu til annarra verka, „en myndatakan er skemmtileg og það endurnærir sál og líkama að leggjast út á tún og taka myndir af lömbum, knúsa þau og vinna traust þeirra.
Ragnar segir megintilgang útgáfunnar að breiða sem víðast út fegurð og fjölbreytni íslensku sauðkindarinnar. „Ég finn fyrir mikilli velvild meðal fólks til okkar sauðfjárbænda og íslensku kindarinnar, sem hefur fætt okkur og klætt um aldirnar,“ segir Ragnar.
/MÞÞ