Endalaus þoka í viðræðum og enginn vilji hjá SFS að semja

Trausti Jörundarson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.
Trausti Jörundarson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar.

mth@vikubladid.is

„Að stærstum hluta strandar á einu atriði, sem vissulega er mikill ágreiningur um en það  

snýst um lífeyrisréttindi sjómanna og að þau séu með svipuðum hætti og hjá öðrum launamönnum í landinu,“ segir Trausti Jörundarson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar. Vissulega segir hann ósamið um ýmis atriði önnur, en lífeyrismálið sé í raun hið eina sem enn stendur verulega út af borðinu og komi í veg fyrir að sjómenn fái kjarasamning. Þeir hafa verið samninglausir í hátt á þriðja ár, eða frá 1. desember 2019.

Trausti segir að sjómenn fari fram á að fá 3,5% framlag í séreign í lífeyrissjóði líkt og tíðkist meðal landsmanna. Viðsemjendur, Samtök fyrirtækja í sjávarúvegi vilji að ákvæðið komi inn á fjórum árum,  „en við viljum sjá meiri hraða í þessu og að þetta náist fram á þremur árum,“

segir hann. „Það er alveg á hreinu að því er okkur virðist að SFS ætlar sjómönnum sjálfum að greiða þessa viðbót að fullu og meira til og í okkar huga gengur það ekki upp.“

Bökkum ekki með þetta

Kostaður við aukin lífeyrisréttindi sjómanna kosti um 1,5 milljarðar á ári, sem skiptist á milli fjölda útgerða í landinu. „Við teljum þetta réttmæta kröfu og ætlum ekki að bakka með hana. Við höfum þrívegis bakkað með okkar kröfur í þessum viðræðum og það eru allir sammála um að það sé nóg. Við hvikum ekki frá því að ná þessum lífeyrisréttindum sem eru í takt við það sem aðrir landsmenn búa við, í gegn.“

Annað atriði sem kippa þurfi í lag sé kauptrygging sem staðið hafi í stað frá árinu 2019 og séu nú það lág að hún nái ekki lágmarkslaunum í landinu, er 100 þúsund krónum lægri.

Vantar vilja til að sitja yfir samningsgerðinni

 Fundur var í kjaradeilunni í liðinni viku og næst verður fundað í haust. „Það er endalaus þoka í þessum viðræðum og sést ekki til lands og hefur í raun og veru aldrei gert vegna áhugaleysis SFS á því að sinna þessari vinnu,“ segir Trausti og veltir fyrir sér hvort þeir sem sitji í samninganefnd samtakanna hafi í raun umboð til að semja við sjómenn. Sjálfur styrkist hann í þeirri trú með hverjum fundinum sem haldinn er. „Það sem vantar að mínu mati er vilji til að sitja yfir samningagerðinni og reyna að ná fram lausnum sem báðir aðilar sætta sig við.“

Trausti segir vitavonlaust að hittast á 3 klukkutíma löngum fundi og svo líði langur tími þar til sá næsti er. Þá minnir hann á að á 12 ára tímabili, frá árinu 2010 hafi sjómenn verð með samning í gildi í 2 ár og 10 mánuði. Annars hafi þeir verið samningslausir.

„Sjómenn hafa góð laun, fiskverð er hátt og útgerðin gengur vel. Þannig að það er ekki sniðugt við slíkar aðstæður að blása til verkfalls þó manni sé það skapi næst til að ná fólki að borðinu,“ segir Trausti.

Nýjast