30. október - 6. nóember - Tbl 44
En óljóst hvar áramótabrenna Akureyringa verður
Á fundi umhverfis og mannvirkjanefndar þann 22 okt. s.l. var m.a rætt um heppilega staðsetningu fyrir áramótabrennu en eins og við sögðum frá á dögunum er ekki heimilt að vera með brennu við Réttarhvamm því samkvæmt reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum mun Slökkvilið Akureyrar ekki gefa leyfi fyrir áramótabrennu í Réttarhvammi þar sem brenna hefur verið undanfarin ár vegna nálægðar við matvælaframleiðslu MS og viðkvæms rekstrar fyrirtækjanna atNorth og N1.
Í reglugerðinni er skýrt að ekki megi brenna bálköst nær en 400 metrum og ljóst að fyrirtækin eru staðsett nær en svo.
Nokkrir staðir hafa verið kannaðir sem taldir eru koma til greina, s.s. austan Hlíðarenda þar sem hægt yrði að nota bifreiðastæði á athafnasvæði BA en landeigandi neitaði beiðni um notkun landsins í vikunni.
Þeir staðir sem einnig hafa verið kannaðir eru á Jaðri (sjá mynd) þar sem hægt yrði að leggja bílum við Jaðar, Ljómatún, austan Kjarnagötu og við Bónus. Einnig er ágætis útsýni frá hestamannahverfinu í Breiðholti og úr Naustahverfi. Finna þyrfti flugeldasýningunni stað í nágrenninu.
Þá hefur svæðið við Glerá þar sem Möl og sandur hefur aðstöðu (sjá mynd) einnig verið kannað en þar er aðkoman ekki góð þó svo eflaust megi leysa það. Útsýni er ágætt frá Hlíðarbraut. Það eru þó innan við 400 metra frá íbúabyggð og alls ekki sjálfgefið að leyfi fengist til að vera með áramótabrennu þar. Flugeldasýning yrði á sama stað og áður vestan Norðurorku.
Einnig hefur verið kannað hvort það kæmi til greina að vera með brennuna á grjótgarði sem liggur til norðurs frá Leiruveginum en líklegt að heimild til þess þurfi frá Isavia. Næg bifreiðastæði eru allt í kringum svæðið og ofanfrá brekkunum. Þá yrði flugeldasýninginn væntanlega frá Naustahöfða eða nágrenni.
Mikilvægt er að Umhverfis- og mannvirkjaráð taki afstöðu til staðsetningar svo vinna megi málið áfram en starfsleyfi fyrir brennu þarf að vera í auglýsingu hjá HNE í nokkrar vikur áður en það er samþykkt.