Ekki fyrir fólk í hjólastól!
Jón Gunnar Benjamínsson bendir á í færslu á Facebook í dag hvernig búið er um hleðslustöð frá Orku náttúrunnar á bílaplaninu við Glerártorg. Óhætt er að fullyrða að fólk sem nota þarf hjólastól á ekki erindi sem erfiði þar. Jón Gunnar sem þarf hjólastól eftir slæmt bílslys sem hann lenti í árið 2007 kallar ekki allt ömmu sína stundar stangveiði af miklum móð svo eitthvað sé nefnt.
Í dag þurfti hann þó að játa sig sigraðan því eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er hreinlega óhugsandi fyrir fólk í hjólastól að nota þessa hleðslustöð.
Jón Gunnar sagði í svari til vefsins að því miður væri svona frágangur langt frá því að vera einsdæmi. Við skorum á Orku náttúrunnar að laga þetta hið snarasta því ekki er þetta beint til sóma.
Skrif Jóns Gunnars frá í dag eru hér að neðan.
,,Til hamingju, Orka náttúrunnar!
Með mikilli útsjónarsemi hefur ykkur tekist að gera hleðslustöð ykkar við Glerártorg á Akureyri, algjörlega örugga á alla kanta, gegn notkun fólks í hjólastólum. Ég reyndi mikið að nota hana nú rétt áðan en hafði ekki árangur sem erfiði. ,,Vel” gert!“