Eins og þú, í Borgarhólsskóla

Nemendur hlustuðu dolfallnir á stjörnuna og sungu hástöfum með. Mynd/epe
Nemendur hlustuðu dolfallnir á stjörnuna og sungu hástöfum með. Mynd/epe

Nemendur Borgarhólsskóla á Húsavík fengu heldur betur góða heimsókn á mánudag þegar tónlistarmaðurinn Ágúst Þór Brynjarsson mætti á svæðið og stýrði söngsal hjá nemendum skólans. Ágúst tekur eins og kunnugt er þátt í söngvakeppni sjónvarpsins með lagið "Eins og þú" og það var að sjálfsögðu sungið svo undir tók í salnum. Ágúst er sjálfur fyrrverandi nemandi og starfsmaður skólans og það leyndi sér ekki að krakkarnir voru ánægðir með að fá hann heim.

Þakið ætlaði af kofanum þegar Ágúst tók „Eins og þú“. Myndir/epe

Ágúst er fæddur og uppalinn á Húsavík og bjó þar til 18 ára aldurs en er í dag búsettur á Akureyri. Það er því ljóst að hann nýtur mikils stuðnings á Norðurlandi í keppninni en Ágúst stígur á svið í fyrra undanúrslitakvöldinu sem fram fer á Rúv í kvöld.

Söngsalurinn var eftirminnilegur þar sem Ágúst leiddi nemendur í gegnum nokkur klassísk söngsalarlög eins og Skólasöng Borgarhólsskóla og Höfuð, herðar hné og tær en þegar kom að því að syngja „Eins og þú“ var engu líkara en að þakið ætlaði af húsinu og það hafði ekkert með veðrið að gera. Að sögnum loknum tók Ágúst sér tíma til að spjalla við nemendur og gefa þeim eiginhandaráritanir.

Nýjast