Eining-Iðja Heldur fleiri hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni
„Það virðist heldur hafa sigið á ógæfuhliðina,” segir Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju en heldur fleiri félagsmenn hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni. Félagið í samstarfi við AFL starfsgreinafélag fékk Gallup til að framkvæmda könnun um ýmis atriði er snerta kaup, kjör og aðstæður félagsmanna sinna.
Fram kom í könnuninni að um 38% þeirra sem svöruðu höfðu frekar eða mjög miklar áhyggjur af sinni fjárhagsstöðu, sem er aukning um 3% frá fyrra ári. Tæplega 30% þeirra sem svöruðu höfðu litlar eða engar fjárhagsáhyggjur.
Spurt var hvort félagsmenn hefðu frestað því að leita til læknis eða tannlæknis eða sleppt því að kaupa lyf. Tæplega 27% þeirra sem svöruðu höfðu frestað læknaheimsókn sem eru fleiri en árið á undan þegar 22% kváðust hafa frestað því að fara til læknis. Örlítið fleiri höfðu slegið tannlæknaheimsókn á frest, tæplega 39% svarenda á móti um 36% árið áður. Aðeins færri höfðu sleppt því að leysa út lyf samkvæmt könnuninni fyrir síðastliðið ár miðað við árið á undan.
Fleiri í erfiðleikum með að standa í skilum
Fram kom að ríflega 18% þeirra sem svöruðu höfðu átt í erfiðleikum með að standa í skilum með lán sín og eru það fleiri en var í sambærilegri könnun fyrir árið 2021 þegar tæplega 13% voru í erfiðleikum með að greiða af sínum lánum. Um 20% þeirra sem þátt tóku höfðu leitað eftir fjárhagsaðstoð, flestir höfðu leita á náðir ættingja eða vina til að ná endum saman.
„Heilt yfir er það um fimmtungur félagsmanna sem eiga í erfiðleikum samkvæmt þessari könnun, það er alveg ljóst að margir hafa það ekki gott. Fólk finnur vel fyrir dýrtíðinni sem ríkir um þessar mundir, það hefur allt hækkað svo um munar, vextir, leiga, matvæli, bara allt sem fólk þarf til að komast af,“ segir hann en bætir við að launahækkun sem fékkst í kjarasamningum fyrir áramót hafi skilað sér til þeirra sem mest þurftu á að halda og það sé jákvætt.
Útlendingar standa höllum fæti
Björn segir að þegar nánar sé rýnt í tölur í könnuninni komi í ljós að þeir sem eigi erfiðast með að standa í skilum sé sá hópur sem svaraði könnuninni á erlendu tungumál og eins hafi verið áberandi fólk sem starfi við veitinga- og þjónustustörf. „Það segir okkur að útlendingar í okkar samfélagi standa höllum fæti, þetta er talsverður hópur og hann hefur í nokkur mæli leitað eftir aðstoð hjá sínum nánustu,“ segir Björn.
Þá nefnir hann einnig að augljóst sé að yngra fólkið neiti sér frekast um að fara til tannlæknis, en í hópnum 24 til 35 ára höfðu 56% svarenda frestað för til tannlækna síðastliðið ár. „Þetta er barnafólkið, sem hefur mikið á sinni könnu og greinilegt að aðrir hlutir eru settir í forgang.“
Sambærileg könnun hefur verið gerð undanfarin 12 ár. Haft var samband við 3000 félagsmenn sem valdir voru af handahófi úr félagaskrám þessara tveggja félaga, 1500 í hvoru félagi. Könnuninn var gerð í október og nóvember.