20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Einar gengur gömlu póstleiðina frá Seyðisfirði til Akureyrar -280 kílómetra leið
Einar Skúlason ætlar að ganga gömlu póstleiðina frá Seyðisfirði til Akureyrar með jólakort og jólakveðjur til fólks og fyrirtækja á Akureyri í farteskinu. Gönguna leggur hann á sig til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Stefnir Einar á að hefja gönguna á Seyðisfirði 4. desember næstkomandi.
Vegalengd gönguleiðarinnar er um það bil 280 kílómetrar og þar sem allra veðra er von og auk þess svartasta skammdegið er gert ráð fyrir að gangan taki 12-16 daga. Það fer eftir veðri og færð hversu hratt verður farið. Einar gengur með gervihnattasendi á sér sem sendir staðsetningu með reglubundnu millibili og þannig getur hann einnig verið í sambandi ef eitthvað bjátar á.
Með allt á bakinu
Einar gengur með allt á bakinu og mun tjalda þegar ekki býðst að gista í húsi. Meðal viðkomustaða verða Egilsstaðir, Fjallssel ofan Fellabæjar, Skeggjastaðir og Skjöldólfsstaðir í Jökuldal, Sænautasel á Jökuldalsheiði, Möðrudalur á Fjöllum, Reykjahlíð í Mývatnssveit, Arndísarstaðir og Fosshóll í Bárðardal, Ljósavatnsskarð, Sigríðarstaðir, mynni Fnjóskadals, yfir Vaðlaheiði og endað á Akureyri fyrir jól.
.Þeir sem þess óska geta sent jólakort og komið fyrir í bakpoka Einars, það kostar 15 þúsund krónur fyrir einstaklinga en 50 þúsund fyrir lögaðila. Viðtakandi þarf að vera á Akureyri eða næsta nágrenni. Panta þarf kort fyrir 1. desember og sér starfsfólk Krabbameinsfélags Akureyrar um að skrifa á kortið fyrir hönd þess sem kaupir. Þá er hægt að senda hvatningarð og jólakveðju og fylgja þeim frjáls framlög þess sem sendir. Hægt verður að fylgast með á korti hvernig ferðinni miðar á Facebook síðu viðburðarins: https://www.facebook.com/postleidin/