20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ein með öllu fær 2 milljónir í styrk
Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að styrkja Vini Akureyrar um 2 milljónir króna vegna hátíðarinnar Ein með öllu árið 2024. Til viðbótar kemur vinnuframlag frá umhverfismiðstöð.
Hátíðin Ein með öllu er haldin árlega um verslunarmannahelgi. Vinir Akureyrar sem standa að hátíðinni óskuðu eftir að framlag Akureyrarbæjar í ár hækkaði í 2 milljónir en það hefur verið 1,8 milljónir króna. Framlag Akureyrarbæjar hefur verið nýtt til að tryggja starfsfólki hátíðarinnar laun og í annað sem til fellur. Auk þess hefur vinna verið lögð í hátíðina frá starfsfólki Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar og einnig hefur vinna framkvæmdarmiðstöðvar bæjarins verið framlag bæjarins í hátíðina.
Vinir Akureyrar óskuðu jafnframt eftir að gerður verði samningur um framlög til hátíðarinnar til þriggja ára þar sem stuðningur hækki hóflega milli ára til að mæta óhjákvæmilegri hækkun á kostnaði.