Eigandi Sjanghæ ætlar ekki að gefast upp

Rosita YuFan Zhang.
Rosita YuFan Zhang.

Eins og fram kom í fréttum fyrr í vikunni mun eigandi veitingastað­ arins Sjanghæ á Akureyri, Rosita YuFan Zhang, leita réttar síns vegna umfjöllunar Ríkisútvarpsins (Rúv) um málefni staðarins. Þann 30. ágúst sl. var greint frá því í beinni útsendingu í kvöldfréttum Rúv að grunur léki á því að eigandi Sjanghæ stundaði mansal samkvæmt heimildum frá starfsmönnum stéttarfélagsins Einingar-Iðju á Akureyri.

Greint var frá því að kínverskir starfsmenn staðarins, sem hafi fengið loforð um góða atvinnu og framtíðarbúsetu hér á landi gegn því að greiða háa fjárhæð fyrir, fengju greiddar 30 þúsund krónur á mánuði og matarafganga að borða. Fréttin reyndist ekki á rökum reist samkvæmt niðurstöðu Einingar-Iðju.

Rosita hefur ritað bréf sem sent var til fjölmiðla þar sem hún lýsir sinni upplifun og fjölskyldu hennar af fréttunum og hvaða áhrif þetta hefur haft. Hún segir 30. ágúst hafa verið myrkan dag í lífi hennar og fjölskyldunnar. Hún var að koma af skólasetningu Tónlistarskólans á Akureyri með 8 ára dóttur sinni, og ætlunin hafi verið að snæða kvöldverð á veitingastaðnum.

„Þegar við komum voru fréttamenn RÚV mættir, á háannatíma um kvöldmatarleytið, með myndavélar og án þess að gera nokkuð boð á undan sér, með myndavélarnar fyrir framan gestina og tóku myndir af kínversku matreiðslumönnunum. Þá var tækjabúnaði stillt upp fyrir framan veitingastaðinn og frétt um að ég væri grunuð um mansal sent út í beinni útsendingu til allra landsmanna. Dóttir mín var með mér og varð vitni af því þegar móðir hennar var króuð af af fréttamönnum, svo hún faldi sig inni á veitingastaðnum hágrátandi. Þessi framkoma og fréttaflutningur virkaði eins og hnífur sem beitt var á fjölskyldu mína,“ segir Rosita. „Þessi frétt hefur umturnað lífi allrar fjölskyldunnar. Dóttir okkar fékk mikið áfall, grét í sífellu og þorði ekki í skólann, fékk háan hita og kvef og spurði mig í sífellu hvort lögreglan væri að koma og setja mömmu í fangelsi!“

Flutti til Íslands árið 1995

Rosita fluttist til Íslands þann 31. desember árið 1995 með foreldrum sínum. Árið 2003 stofnaði hún fyrirtækið Yu Fan Ferðir ehf., sem er ein elsta ferðaskrifstofa í eigu Kínverja á Íslandi. Ferðaskrifstofan hefur tekið á móti 87 fylkis- eða borgarstjórum frá Kína og miklum fjölda kínverskra ferðamannahópa. Þá segist Rosita hafa aðstoðað fjölmörg kínversk og íslensk fyrirtæki með góðum árangri við að stofna til viðskiptasambanda.

„Ég hef komið að vinnu við samskipti nærri allra íslenskra ráðuneyta við Kína, jafnvel fylgt gestum í heimsóknir í Alþingishúsið og á Bessastaði. Árið 2008, í að­ draganda kreppunnar, fór ég sem fulltrúi Lýsis til Kína til að vinna að þeim erfiðu málum sem snúa að markaðssetningu framleiðsluvara fyrirtækisins á Kínamarkað. Árið 2010 hélt ég blaðamannafund á 5 stjörnu hóteli í Shanghai-borg, þar sem forseti Íslands, 600 kínverskir söluaðilar og fulltrúar 20 fjölmiðla voru viðstaddir. Þessi fundur varð til þess að auka mjög sölu á vörum Lýsis í Kína og fjölmargir nýir söluaðilar bættust við, þar með talin vefverslun Ali Baba. Ég hef tekið þátt í ýmsum viðburð­ um sem tengjast viðskiptasamböndum Íslands og Kína.

Árið 2005 var ég í fylgdarliði forseta Íslands sem fór til Kína í boði Hu Jintao aðalritara. Árið 2010 var ég þátttakandi í bás Íslands á Heimssýningunni í Shanghai sem fulltrúi fyrir Yu Fan Ferðir ehf. og Life Iceland ehf. Árið 2014 var ég fulltrúi Life Iceland ehf. í heimsókn til Kína í tilefni þess að fríverslunarsamningur hafði verið undirritaður milli Íslands og Kína. Árið 2015 fylgdi ég fulltrúum Ferðamálaráðs í kynningarferð til SAAsíu.“

Ekki auðveld ákvörðun að fara til Akureyrar

Í maímánuði árið 2016 segist Rosita hafa viljað bregðast við síauknum fjölda asískra ferðamanna til landsins og fluttist með sjö ára dóttur sína til Akureyrar til að stofna veitingastað. „Þetta var ekki auðveld ákvörðun fyrir mig og fjölskylduna. Ekki kom mér til hugar að einungis einu ári eftir stofnun staðarins, þegar mestu erfið­ leikarnir áttu að vera að baki, þá mundi RÚV gera árás á staðinn og gjöreyða honum. Svona óábyrg fréttamennska gagnvart mér og veitingastaðnum er engan vegin réttlætanleg. Ég vil benda á nokkur atriði varð­ andi framgöngu RÚV við þennan fréttaflutning: Kínverskur eigandi veitingastaðarins? Ég hef búið á Íslandi í 20 ár og langt er síðan ég gerð­ ist íslenskur ríkisborgari. Eiginmaður minn er íslenskur, dóttir mín er bæði af kínversku og íslensku bergi brotin. Ég hef lengi litið á mig sem Íslending,“ segir Rosita.

Ætlar ekki að gefast upp

Veitingastaðurinn var opnaður á miðvikudaginn og sagði lögfræðingur Rositu í skriflegu svari til blaðsins að hún sé staðráðin í því að láta ekki umrædda fréttaumfjöllun hrekja sig frá Akureyri, eða leiða til þess að staðnum verði endanleg lokað. Hins vegar sé ljóst að langtímaáhrifin eigi eftir að koma betur í ljós. 

Nýjast