„Ég vona að Húsavíkingar fjölmenni í Samkomuhúsið því þetta verður einstakt“
Listahátíðin Skjálfandi verður haldin í 10. sinn föstudaginn 19. maí nk. í Samkomuhúsinu á Húsavík. Hátíðin hefur verið árlegur viðburður á Húsavík en fyrstu árin var hún haldin að Kaldbak, rétt sunnan Húsavíkur. Undan farin tvö ár hefur hátíðinni reyndar verið aflýst vegna Covid en snýr nú tvíefld til baka.
Það er Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, stundum kennd við Kaldbak sem hefur haldið utan um hátíðina öll þessi ár og gerir það einnig að þessu sinni.
„Hátíðin í ár verður tileinkuð listakonunni Huldu og undurfallega Skjálfandaflóa. Una Stef mun loka hátíðinni með nýju samstarfsverkefni sínu sem ber heitið Huldumál – Ný íslensk sönglög við ljóð Huldu,“ segir Harpa ánægð með að Skjálfandi sé að snúa aftur.
„Við þurftum að aflýsa hátíðinni í tvö ár í röð. Í kjölfarið missti ég svolítið dampinn eins og margir gerðu í Covid. Ég verð að viðurkenna að við lögðumst undir feld og hugsuðum virkilega um hvort við ættum að halda hátíðina aftur. Svo fékk ég bara svo mikla hvatningu að ég gat ekki sagt nei og er svo ótrúlega fegin að hafa tekið þá ákvörðun,“ útskýrir Harpa himinlifandi.
Harpa segir að útslagið hafi verið kórvek Unu Stef sem unnið var upp úr ljóðum Huldu og sýnt var í Fríkirkjunni. „Þá fóru púslin að raðast saman. Hulda náttúrlega var frá Húsavík og þar var komin tenging. Við ákváðum að lokum að flytja þetta verkefni til Húsavíkur á og gera að lokaatriði Skjálfanda.“
Harpa viðurkennir að það kosti mikla vinnu að skipuleggja svona hátíð enda hefur hún verið önnum kafin undan farnar vikur. „Mesta vinnan er fólgin í því að heyra í listafólki og halda því samtali gangandi. Það þarf að hóa mörgum saman og það hefur þurft mikla hvatningu. Árni eiginmaður minn hefur séð um samskiptin við listafólkið og svo er Elísa Þóreyjardóttir með okkur en hún kemur til með sjá um kynningar á listafólkinu á samskiptamiðlum,“ útskýrir Harpa.
Dagskrá hátíðarinnar verður afar fjölbreytt í ár. M.a. annars vinnusmiðja í boði Ocean missions þar sem þemað verður verndun hafsins, nemendur Borgarhólsskóla sýna sjónlistaverk, kvikmyndaverk verða á boðstólnum, Björn Grétar flytur uppistandið Pabbalífið og að sjálfsögðu mun Hóffý Ben flytja barnaþulur eftir Huldu. Rúsínan í pylsuendanum verður svo flutningur Kammerkórsins Aurora á kórverkinu Huldumál eftir Unu Stefánsdóttur við ljóð Huldu. Þetta og margt fleira á Skjálfandi í Samkomuhúsinu.
„Við erum afar spennt yfir því að fara af stað með þetta aftur og ég vona að Húsavíkingar fjölmenni í Samkomuhúsið því þetta verður einstakt,“ segir Harpa að lokum.