20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ef ekki nú, hvenær þá?
Eitt af því sem gerði upplifunina eftir efnahagshrunið árið 2008 sérstaka, var hið svokallaða handverksæði sem fór í gang víða í þjóðfélaginu í kjölfarið. Fyrstu mánuðina og jafnvel árin eftir hrunið birtist þetta einkum í prjóni og miklu lopapeysuæði. Sjálfri þótt mér þetta svo merkilegt að á endanum varð þessi ásókn í sköpun og handverk að rannsóknarefni í meistararitgerð. Í rannsókn minni kom sterklega í ljós að fólk var að reyna að finna ró á umbrotatímum en um leið að undirstrika að hér væri til hráefni og hæfileikar sem myndu bjarga okkur í gegnum þennan tíma. Handverkið og menningin varð ákveðin birtingarmynd þjóðernisástar og einhvers konar þjóðerniskenndar. Um leið og við skörtuðum lopaflíkum sem tákni um stolt, nægjusemi og aukna áherslu á það sem viðmælendur kölluðu kvenleg gildi sýndum við fram á að ekki væri neitt vandamál fyrir þjóðina að lifa af án fjöldaframleiddra, útlendra hluta. Við værum sjálfum okkur næg.
Á meðan rannsókninni stóð varð hins vegar athyglisverð breyting. Í fyrstu viðtölunum, sem ég tók, kom fram skýr ósk og trú á, að eftir þetta hrun væri komið að löngu tímabærum þjóðfélagsumbótum og breytingum á gildismati. Héðan í frá yrði lögð minni áhersla á peninga og hraða en meira áhersla á jöfnuð, þjóðleg gildi og mannlegra og fjölskylduvænna samfélag. Sköpun ýmiss konar, bæði listir og handverk, ekki síst kvenna, nyti loks sannmælis og myndi nýtast til að breyta samfélaginu til betri vegar. Undir lok rannsóknarinnar kvað hins vegar við allt annan og svartsýnni tón. Viðmælendur mínir töldu flestir að allt væri annað hvort komið í sama farið og fyrir hrun, eða á hraðri leið þangað og ekkert þeirra sá neitt sérlega jákvætt við það. Að hraðinn, eftirsókn eftir peningum og hlutum, vinna, samkeppni og fleira sem jafnan einkennir nútíma, vestræn samfélög væri aftur orðið ríkjandi ástand í samfélaginu og því væri ljóst að við myndum fyrr eða síðar standa frammi fyrir öðru hruni þó það yrði líklega af öðrum toga.
Og viðmælendur mínir höfðu á réttu að standa. Aftur stöndum við frammi fyrir einhvers konar hruni, þó þetta ástand og hrun kæmi úr annarri átt en mörg okkar bjuggust við. Eins og eftir efnahagshrunið 2008, heyrast nú raddir að allt sé breytt. Að þegar við komumst úr þessu kófi og afleiðingum þess höfum við lært einhvers konar lexíu og förum ekki í sama farið aftur. Ég verð að játa að ég er svartsýn, en vona þó að það sé rétt. Sérfræðingar segja okkur að von sé á fleiri faröldrum. Vísindamenn benda á að þessar aðgerðir sem standa nú yfir vegna Covid 19 séu aðeins forsmekkurinn af því sem þurfi að grípa til þegar yfirstandandi loftslagsbreytingar hafi sífellt meiri og verri áhrif á vistkerfi og um leið líf, heilsu og öryggi um allan heim. Af því leiðir að nauðsynlegt er að íhuga af alvöru breyttar áherslur á lífsháttum og gildum. Minnkandi mengun í heiminum undanfarna tvo mánuði hefur sýnt skýrt hve áhrif lífshátta nútímamannsins eru mikil og alvarleg. Því verðum við að reyna að sökkva okkur ekki aftur á kaf í hið mengandi neyslusamfélag og búa um leið til mengunarkóf, heldur finna aðrar leiðir og úrlausnir þó slíkt sé hvorki einfalt, ódýrt né sársaukalaust.
Og þá erum við aftur komin að ástandinu eins og það er í dag. Eftir stendur að við sem samfélag þurfum að bregðast hratt við til að bjarga því sem bjargað verður, reyna að halda sönsum, lífi og heilsu, sinna fjölskyldu og vinum og jafnvel vinnu þrátt fyrir þær takmarkanir sem yfirstandandi ástand leggur á okkur. Flest vitum við hvernig ástandið er núna og gerum okkur að einhverju marki grein fyrir því hvað bíður okkar. Hið athyglisverða eru bjargráðin okkar undanfarnar vikur eru að nokkru leyti keimlík þeim sem notuð voru í síðasta hruni - hugsanlega að lopanum undanskildum. Þá, sem nú, reiddum okkur á menntun, vísindi og kunnáttu, þó á ólíkum sviðum væri. Við nýttum afurðir skapandi starfa og nutum lista, handverks, menningar og menntunar til að stytta okkur stundir og njóta lífsins þrátt fyrir allt. Í nýliðnu samkomubanni voru landsmenn hvattir til að taka sér bók í hönd og lesa sem enginn væri morgundagurinn. Söfn birtu myndir af safnkosti sínum á netinu og skólar héldu eftir fremsta megni uppi einhvers konar kennslu. Hámgláp ýmiss sjónvarpsefnis náði nýjum hæðum. Tónlistarmenn streymdu tónleikum og leikhúsin streymdu upptökum, sýningum, ljóða- eða leiklestri. Allir lögðust á eitt og oft þá starfsstéttir sem ekki eru endilega efstar í launastiganum alla jafna eða jafnvel virðingarstiganum.
En hvaða máli skiptir slíkur óþarfi sem listir, menning, menntun og handverk þegar faraldur, sem ógnar lífi og efnahag, stendur yfir og ekki sér fyrir endann á? Jú, ástæðan er sú að ekkert af ofantöldu gerist í tómarúmi en samt eru það þessir hlutir sem gera lífið þess virði að því sé lifað þegar grunnþörfum okkar hefur verið mætt. Allt krefst þetta peninga, húsnæðis, tækja og tóla, tíma, mikillar vinnu, tilrauna, mistaka, listamannalauna, styrkja og fleira. Reglulega heyrast umræður um að allt svona sé einfaldlega sóun á peningum, skapi engin verðmæti og jafnvel er ýjað að því að fólk sé „á spenanum“ án þess að frá því komi neitt af viti. Í áðurnefndu samkomubanni bárust hins vegar þær gleðilegu fréttir frá Akureyri að Sinfóníuhljómsveit Norðurlands væri á fullu að spila tónlist inn á kvikmyndir og þætti fyrir Netflix. Væntanlega sá enginn það fyrir þegar Menningarhúsið Hof var byggt eða Sinfóníuhljómsveit Norðurlands var stofnuð en af því leiddi þó þetta. Æ oftar gerist það að við sjáum verðmætasköpun úr óvæntum áttum.
Fyrir óvissa framtíð ættum við því að leggja enn meiri áherslu á ólíka menntun, auk þess að auka vægi skapandi greina því þar liggja tækifæri okkar og von til þess að geta breytt og verið breytingin. Það kallar á gífurlegt endurmat á ýmsu því sem okkur hefur hingað til þótt eðlilegt. Þetta kallar á miklar breytingar í samfélagsgerð okkar og hegðun og þetta mun kosta sitt. En ekki verður hjá því komist að hugsa hlutina upp á nýtt, áður en það verður um seinan.
Að því sögðu afhendi ég Jónu S. Friðriksdóttur, fjölmiðlafræðingi og safnstjóra á Iðnaðarsafninu á Akureyri pennann og bíð spennt eftir pistli hennar í næstu viku.