Ef ég væri sími.

Sigrún Vilborg Heimisdóttir skrifar
Sigrún Vilborg Heimisdóttir skrifar

Líklega er áhugi fólks á tækjum og tækni mismikill. Flestir eru þó duglegir í að passa uppá símana sína, tileinka sér tækninýjungar og uppfæra þá. Þetta litla tæki sem fylgir okkur mörgum í daglegu lífi. Síminn er gjarnan skammt undan, uppi á borði, í töskunni eða vasanum. Góður sími getur veitt okkur sítengingu við alheiminn, vini og vandamenn, afþreyingu, vinnuna og bara allt mögulegt.

 Þessi tæki eru lítil en öflug. Tæki sem krefjast reglulegrar athygli eigenda sinna og þau þarf að passa fyrir veðri og vindum, höggum og ýmiskonar áföllum. Við kaupum gjarnan varnarfilmur og hulstur, hlöðum batteríið á nóttunni og tökum símann með okkur vel varinn og hlaðinn inn í næsta dag. Við pössum að hafa ekki of mörg öpp, skjöl, leiki eða síður opnar til að halda nú hleðslunni á batteríinu lengur. Þá þurfum við líka að huga að okkar eigin tímastjórnun og að gleyma okkur ekki í einhverju freistandi í símanum, á kostnað annars. Þeir sem eiga síma reyna líklega flestir, eftir fremsta megni að passa þá vel svo þeir endist.

Það er nauðsynlegt að veita því sem okkur þykir mikilvægt athygli. Ef ég væri sími, myndi ég passa vel upp á mig, reyna að verja mig fyrir áföllum og vernda. Leitast við að halda einhverskonar jafnvægi í daglega lífinu og passa að ekki sé of mikið í gangi í einu til að tæma mig ekki af orku. Flest þörfnumst við þess að hlaða eigin líkamlegu-, félagslegu- og sálrænu „batterí“ reglulega. Til þess þurfum við að gera eitt og annað sem er okkur nauðsynlegt og gefandi. Gera ánægjulega hluti, gleyma okkur í tómstundum eða eiga gæðastundir í góðum félagsskap. Fá hvíld við hæfi, nú og tíma fyrir þessar mikilvægu hleðslustundir, líkt og símarnir okkar. Sennilega viljum við líka flest iðka það sem er hjálplegt til að passa upp á okkur, svo við endumst.

Hugum að okkur sjálfum, því við skiptum máli. Svona alveg eins og ef við værum símar.

 

Höfundur er sálfræðingur og framkvæmdastjóri Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar

 

Nýjast