Drottningar Kristínar Lindu sýndar á Bláu könnunni
mth@vikubladid.is
Kristín Linda Jónsdóttir fyrrum kúabóndi í Miðhvammi í Þingeyjarsveit opnar í dag, föstudaginn 9. september myndlistarsýninguna Drottningar á kaffihúsinu Bláu könnunni í miðbæ Akureyrar.
Drottningarer heilstæð sýning 20 olíumálverka þar sem raunveruleiki og ævintýri kallast á og hvergi er til sparað í litum og táknum. Sýningin er frumraun Kristínar Lindu sálfræðings, fyrirlesara, fyrrum ritstjóra Húsfreyjunnar og kúabónda í myndlist. Verkin eru rómantísk, draga upp heillandi myndir og sögur af barnslegri gleði og leik. Öll málverkin bera í sér sitt ævintýri, hugtök, hugmyndir og tilfinningar og skarta nöfnum, eins og Frelsi, Ást, Gleði, Vernd, Styrkur, Saga og Von.
Kristín Linda er Norðlendingum að góðu kunn. Hún ólst upp í Fnjóskadal, var bankastarfsmaður og blaðamaður á Akureyri í 15 ár, síðan kúabóndi í Aðaldal í Þingeyjarsýslu í önnur 15. Þá hóf hún háskólanám í sálfræði og hefur nú starfað sem sálfræðingur í Reykjavík í 10 ár.
Í leit sinni að sköpun, gleði og heillandi viðfangsefnum á síðari hálfleik ævinnar lá leiðin á námskeið Þuríðar Sigurðardóttur myndlistarkonu og söngkonu - í olíumálun og þar með var teningnum kastað. Kristín Linda hefur haldið ævintýrinu með olíulitina og strigann áfram á sinn eigin hátt með dyggum stuðningi Þuru.
Kristín Linda er vel kynnt sem sálfræðingur, fyrirlesari og hefur haldið fjölda námskeiða bæði hérlendis og á Spáni. Hennar köllun er að leggja fólki lið í listinni að lifa á jákvæðan og hvetjandi hátt, bæta líðan, lífsgæði, farsæld og hamingju fólks, eygja það bjarta, fagra, glaða og góða og njóta í senn þess sem er og skapa ótal ný ævintýri.