Dauðinn eftir Björn Þorláksson að koma út Viðkvæm, sorgleg og falleg bók um dauðann

Björn Þorláksson
Björn Þorláksson

Dauðinn er heiti á bók eftir Björn Þorláksson blaðamann. Hún kemur í verslanir á næstu dögum. Í bókinni sækir Björn Íslendinga heim, en í þeim hópi eru Akureyringarnir Gunnar Þór Gunnarsson hjartalæknir og Hildur Eir Bolladóttir prestur.  

Gunnar lenti ásamt eiginkonu sinni í einhverri sárustu raun sem lífið getur lagt okkur á herðar þegar dóttir hans lést barnung í höndunum á honum.  Hildur Eir hefur oftar en einu sinni þurft að glíma við krabbmein sem hefur breytt viðhorfum hennar til lífs og dauða en sumpart gert hana frjálsari en nokkru sinni.  Reynslusögurnar í bókinni eru af ýmsum toga. Alls byggir rannsóknarvinna höfundar á meira en fimmtíu viðtölum. Ein helsta þungamiðja samtalanna er hvernig hægt er að vinna úr missi úr sorg.

 „Bókin er ekki bara viðkvæm, sorgleg og falleg heldur líka glaðleg, upplýsandi þörf og skemmtileg á köflum,“ segir í kynningu.  „Bókin Dauðinn veigrar sér ekki við því að taka efnislega á dauðanum auk þess sem tiplað er á fræðum og rannsóknum sem sýna hvernig hugmyndir okkar um dauðann breytast frá tíma til tíma.“Norðlenska bókarútgáfan Tindur gefur bókina út.

Björn Þorláksson blaðamaður er höfundur bókarinnar Dauðinn sem kemur í verslanir á næstu dögum.

Nýjast