Dægurlagaperlur, rokk og Búkalú Kabarett á Græna hattinum

Búkalú er kabarett- og burlesquesýning þar sem Margrét Maack býður uppáhaldsskemmtikröftum sínum í þ…
Búkalú er kabarett- og burlesquesýning þar sem Margrét Maack býður uppáhaldsskemmtikröftum sínum í þeysireið um Ísland

Fjölbreytt dagskrá verður á Græna hattinum um Hvítasunnuhelgina. Eyjólfur Kristjánsson eða Eyfi mun setjast niður með kassagítarinn í hönd og flytja sín þekktustu lög ásamt fleiri annað kvöld, föstudaginn 7. júní. Einnig munu bransasögur og gamansögur fljóta með. „Komið og njótið notalegrar kvöldstundar með Eyfa sem samið hefur margar af perlum íslenskrar dægurlagasögu,“ segir um tónleikana sem hefjast kl. 22.00.

Íslenska Iron Maiden heiðursbandið MaidenIced heldur stórtónleika laugardagskvöldið 8. júní. Helstu slagararnir frá 40 ára ferli Iron Maiden verða teknir ásamt öðrum vel völdum lögum. Auk þess verða tekin fyrir nokkur lög af meistaraverkinu Seventh Son of a Seventh Son, en sveitin spilaði plötuna í heild sinni á tónleikum í fyrra við góðan orðstír. Meðlimir Maideniced eru Kristján B. Heiðarsson, trommur, Magnús Halldór Pálsson, bassi, Raggi Ólafsson, söngur, Reynir Baldursson, gítar og Sigurður Waage, gítar. Húsið opnar kl. 21:00 en tónleikarnir hefjast kl. 22:00.

Búkalú er kabarett- og burlesquesýning þar sem Margrét Maack býður uppáhaldsskemmtikröftum sínum í þeysireið um Ísland. Þau verða á Græna hattinum á Hvítasunnudag og sýningin hefst kl. 21:00. Sýningin er aldrei eins og á Græna hattinum koma fram Margrét sjálf, Fettibrettan Rosabelle Selavy frá París, draglistamaðurinn Tom Harlow frá Skotlandi, Dansmærin Darlinda Just Darlinda, kabarettsnillingurinn Eric Schmalenberger, hinn kynþokkafulli apamaður Evil Hate Monkey og hin þokkafulla BooBoo Darlin frá New York. Nánar má lesa um sýninguna og ferðalagið allt á www.bukalu.net.

Nýjast