Sex skemmtilegar vísnagátur
Jón Magnússon á Akureyri hefur undanfarin ár gert vísnagátur og í ár sendir hann Vikudegi sex gátur. Við birtum hérna gáturnar, með góðfúslegu leyfi frá Jóni. Svörin verða svo birt á milli jóla og nýárs.
Gáta 1:
Útí Höfn er hlykkjótt gönguleið.
Helst er þráðbeint sett á teikniblað.
Ég gæti þess svo Gunna verði ei reið
í gleðskap aldrei fara yfir það.
Gáta 2:
Ekki í görðum eða blettum.
En á túnum blasa við.
Sjást þær oft í sushi réttum,
sem og hári, hlið við hlið.
Gáta 3:
Eitt af því sem amma kunni
einkum gerði fyrir jól.
Stundum hef í hönd og munni.
Hestar gera, einnig hjól.
Gáta 4:
Heppnum færir fé og muni í skyndi.
Frestun þess að gera hlutum skil.
Erfitt verk í ölduróti og vindi.
Áður nauðsyn þess að verða til.
Gáta 5:
Hér í borg í háskólanum argur
hrokagikkur þreytti prófin fimm.
Inní honum ástarfundur margur.
Ungur villist fuglinn kvöldin dimm.
Gáta 6:
Úr fortíðinni þarftu loks að leita
lausnin felst í tveimur gömlum orðum.
Áhöldum sem bændur þurftu að beita
í baráttu við torf og jarðveg forðum.
Fyrra áhald einnig nafn á manni
embætti hann gegnir hér á landi.
Stórum jeppa stýrir hann með sanni
stofnun einnig, þar er rekstrarvandi.
Í niðurskurði skyldugur að vinna
skítverk nokkuð, lausnin hér er það.
Því seinna orðið sem að þarf að finna
er sagnorð algengt, þú mátt finna hvað.