Carnegiea Gigantea

Það er áhugavert og frískandi að fara í leikhús þar sem hugtök á borð við réttarríki, lög, mannréttindi, valdboð og stjórnarskrárfíkn bera ítrekað á góma. Gott leikhús á meðal annars að hreyfa við áhorfendum og vekja upp spurningar og vangaveltur um lífið og tilveruna og samfélagið sem við erum hluti af og þátttakendur í. Leikverkið Kaktusinn, sem Leikfélag Akureyrar frumsýndi síðastliðið föstudagskvöld í Samkomuhúsinu, tekur á ýmsu er varðar þann ótta sem virðist hafa búið um sig í sálartetri einstaklinga og samfélaga um allan heim nú á 21. öldinni. Stöðugar fréttir af yfirvofandi árásum valda því að þráin eftir öryggi er mikil, sama hvort það öryggi er raunverulegt eða falskt, enda kannski ekki auðvelt að skilja þar á milli. Í verkinu má greina vissa ádeilu á stjórnvöld sem sögð eru ala á ótta almennings og óttinn svo notaður sem stjórntæki. Höfundur verksins er þýski rithöfundurinn og mannréttindalögfræðingurinn Juli Zeh. Löglærður rithöfundur er spennandi blanda og því ekki að undra að efnistök í verki hennar séu tengd lögum og mannréttindum.  

Leikstjóri sýningarinnar er Ragnheiður Skúladóttir leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og mun þetta vera hennar frumraun sem leikstjóri hjá Leikfélaginu. Leikarahópurinn er sá sami og í Leigumorðingjanum nú í haust, þau Aðalbjörg Árnadóttir, Anna Gunndís Guðmundsdóttir, Einar Aðalsteinsson og Hannes Óli Ágústsson. Öll eru þau fastráðnir leikarar hjá Leikfélagi Akureyrar sem hafa fyrr á leikárinu sýnt og sannað hæfni sína og frábært samspil. Sögusvið leikverksins er skrifstofa lögreglunnar í Frankfurt í Þýskalandi, þar sem meintur hryðjuverkamaður frá Californiu, Carnegiea Gigantea, er tekinn höndum og færður á lögreglustöðina til yfirheyrslu. Honum er kynntur réttur sinn, meðal annars rétturinn til að þegja. Óhætt er að segja að hinn grunaði nýti þann rétt sinn út allt verkið, enda er hann risastór kaktus sem eðli málsins samkvæmt er ekki málgefinn. Þýski sérsveitarmaðurinn Dürrmann, sem leikinn er af Hannesi Óla, vill ganga hart fram í yfirheyrslunum og hefur sér til aðstoðar tvo lögreglunema, þau Cem og Súsí, sem Einar og Anna Gunndís leika. Það er einungis Súsí sem viðrist hafa nokkrar efasemdir um þessa aðgerð. Hún minnir félaga sína á að hinn grunaði sé saklaus uns sekt hans er sönnuð og vísar þar til einnar af meginreglum sakamálaréttarfars sérhvers réttarríkis. Það er ekki fyrr en æðstavaldið Doktor Schmidt, sem leikinn er af Aðalbjörgu, kemur til sögunnar að hlutirnir fara að gerast.

Leikmynd og búninga hannaði Tinna Ottesen. Leikmyndin samanstendur einungis af litlu þröngu skrifstofuherbergi. Þetta minnkar sjálft sviðið og það leikrými sem leikararnir hafa, en að sama skapi finna áhorfendur fyrir meiri nánd við sjálft leikverkið. Á köflum var þetta þrúgandi og erfitt, sértaklega eftir að búið var að byrgja fyrir einu útgönguleiðina á sviðinu og hitinn í salnum ætlaði alla að kæfa. Þetta var þó án efa gert meðvitað til þess að koma til skila þeirri stöðu sem persónurnar töldu sig vera í. Ljósahönnun var í höndum Jóhanns Bjarna Pálmasonar. Eðli málsins samkvæmt býður verkið ekki upp á mikla fjölbreytni í lýsingu, en Jóhanni tókst vel að nýta þau tækifæri sem í boði voru og má þar sérstaklega nefna lýsingu í gegnum göt á skrifstofumöppunum.

Leikararnir eiga allir hrós skilið fyrir góðan og sannfærandi leik og túlkun, en því miður var það ekki nóg. Þrátt fyrir áhugavert umfjöllunarefni nær sýningin ekki að halda áhorfendum við efnið. Hún er langdregin á köflum og sum atriðin heldur viðburðasnauð. Hér á ferðinni leikrit sem vandi er að vinna úr og hefði mátt þétta og stytta, en sýningin heldur ekki út í rúma tvo klukkutíma. Verður að skrifa þessa ágalla á höfund verksins og á leikstjórann.

 

Sólveig Þórhallsdóttir, leiklistargagnrýnandi Vikudags


Athugasemdir

Nýjast