Akureyri - Leikskóli fyrir 160 börn verður byggður við Naustagötu í Hagahverfi

Tölvugerð teikning af  fyrirhugðum leikskóla
Tölvugerð teikning af fyrirhugðum leikskóla

Í gær var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Húsheildar ehf. um hönnun og byggingu leikskóla við Naustagötu í Hagahverfi ásamt frágangi á leiksvæði, leiktækjum, bílastæði og öðru á lóð.

Lóð leikskólans er um 9.328 m² að stærð og gert er ráð fyrir 40-50 bílastæðum á lóðinni. Byggja skal einnar hæðar byggingu sem verður um 1.665 m². 

Markmiðið er að bæta úr þörf fyrir 8 deilda leikskóla við Naustagötu 9 í Hagahverfi á Akureyri og að öll aðstaða fyrir börn og starfsfólk verði til fyrirmyndar. Leikskóli í Hagahverfi  verður við Naustagötu þar sem bærinn Naust 2 stóð áður. Á lóðinni er nokkur trjágróður sem lögð er sérstök áhersla á að nýta sem  best fyrir leikskólalóðina. Lóðin er einnig í  góðum tengslum við fallega náttúru og útivistarsvæði með trjárækt.

Leikskólinn er fyrir um 156 börn á 8 deildum, leikrými fyrir hvert barn verði að lágmarki 3,5m². Börnin eru á aldrinum eins árs til sex ára. Gert er ráð fyrir allt að 47 stöðugildum i leikskólanum en mestur getur fjöldinn orðið 55 samtímis, vegna afleysinga og sérstuðnings. Markmið Akureyrarbæjar með byggingu leikskólans eru að bæta úr þörf fyrir 5 deildir 2026 og fullbúinn leikskóla með 8 deildum árið 2028.

Leitað er eftir góðri lausn á húsnæðismálum leikskólans með það í huga að nýting á lóðinni verði sem best út frá því starfi sem á sér stað í leikskólanum. Markmið bæjarins er einnig að útlit húss og lóðar taki mið af því umhverfi sem byggingin er í og þjóni starfsemi leikskóla sem best. Leikskólinn verði aðlaðandi bæði að utan og innan og aðkoma að honum verði auðveld.

Áhersla á að húsið veiti skjól fyrir norðan- og norðaustanátt 

Við hönnun leikskólans er hugað sérstaklega að skjólmyndun á leikskólalóð, þannig að börn njóti útiverunnar sem mest. Hönnun og efnisval tekur mið af því að allt viðhald verði sem hagkvæmast til lengri tíma litið. Leikskólinn verður byggður í “L” og að mestu meðfram norðurhlið lóðar og að hluta með austurhlið að trjáreit sem á að varðveita. Lögð er áhersla á að húsið veiti skjól fyrir norðan- og norðaustanátt og þarf verktaki að láta gera vindgreiningu vegna norðanáttar og bregðast við því sem upp á vantar til að skýla fyrir norðanátt.

Í útboðsgögnum segir að lóð leikskólans skuli girða af með girðingu af vandaðri og viðurkenndri gerð, öll leiktæki og undirlag verði að uppfylla kröfur sem gerðar eru í lögum og reglugerðum. Verkinu tilheyra einnig allar innréttingar, búnaður og tæki sem ekki eru sérstaklega undanskilin sem framlag Akureyrarbæjar. Verktaki skal sjá um alla hönnun verksins og skila inn öllum þeim teikningum sem krafist er í lögum og reglugerðum. Öll hönnun og bygging hússins skal uppfylla íslenska staðla, lög og reglugerðir m.a. byggingarreglugerð, reglugerðir sem fjalla um hollustuhætti og öryggismál og annað sem á við um byggingu leikskóla og leikskólalóðar.

Verkinu er skipt í tvo áfanga. Fyrri áfanga skal ljúka í ágúst 2026 en hann felur í sér fullnaðarfrágang á 4-5 deildum og hluta lóðar ásamt bílastæðum. Síðari áfanginn er fullnaðarfrágangur á leikskólanum sem skal lokið í júní 2028.

Frá undirritun samningsins í gær.


Athugasemdir

Nýjast