Aðalsteinn Árni hættir sem stjórnarformaður Þekkingarnets Þingeyinga

Óli Halldórsson, forstöðumaður og Aðalsteinn Árni, fráfarandi formaður stjórnar að loknum síðasta st…
Óli Halldórsson, forstöðumaður og Aðalsteinn Árni, fráfarandi formaður stjórnar að loknum síðasta stjórnarfundi hins síðarnefnda Mynd Þekkingarnet Þingeyinga

Á aðalfundi Þekkingarnets Þingeyinga urðu þau tíðindi að Aðalsteinn Árni Baldursson steig úr stóli formanns stjórnar Þekkingarnetsins. Aðalsteinn, eða Kúti okkar, hefur leitt stjórn stofnunarinnar frá stofnun eða í ríflega 20 ár. Þar á undan átti hann meira að segja einnig sæti í stjórn Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga, sem steig fyrstu skref í fullorðinsfræðsluþjónustu í héraðinu, áður en Þekkingarnetið tók þá starfsemi yfir. Aðalsteinn Árni óskaði ekki eftir áframhaldandi kjöri í stjórn á aðalfundi og lagði til að aðrir tækju við sínu hlutverki, þ.m.t. samstarfsfólk úr ranni aðila atvinnulífsins.

Engum dylst að oft hefur þurft að hafa fyrir hlutunum á þróunarferli þessarar stofnunar og stjórnendur þurft að ryðja úr vegi hindrunum af margvíslegu tagi, ekki síst á upphafsárunum. Þessi viðfangsefni hafa útheimt traust bakland í stjórn og þá hefur oft mætt töluvert á stjórnarformanni.  Þekkingarnetið hóf starfsemi sína með einum starfsmanni og afmörkuðum verkefnum árið 2003 en hefur sífellt bætt við sig nýjum verkefnum og starfssviðum. Stofnunin er nú í leiðandi hlutverki í klasamstarfi um 50 starfsmanna í þekkingar-, rannsókna- og nýsköpunarstörfum á Stéttinni á Húsavík.

Óli Halldórsson, forstöðumaður Þekkingarnetsins, hefur starfað með Aðalsteini öll þessi ár og færði Aðalsteini Árna á fundinum kærar þakkir fyrir náið samstarf og árangursríkt. Áfram verður þó lögð mikil áhersla á að halda traustu og nánu samstarfi Þekkingarnetsins við stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, þar sem Aðalsteinn Árni situr sem formaður Framsýnar-stéttarfélags.

Það var hac.is sem fyrst sagði frá.


Athugasemdir

Nýjast