Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 36 milljón króna afgangi á liðnu ári
„Þrátt fyrir að HSN glími við áskoranir í mönnun, eins og aðrar heilbrigðisstofnanir, þá er stofnunin afar heppin með starfsfólk sem er almennt mjög helgað og veitir fyrirtaks þjónustu. Á hverjum degi má sjá fjölbreyttan hóp starfsfólks lyfta grettistaki í margvíslegum störfum sínum,“ segir í skýrslu framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, HSN en ársfundur stofnunarinnar var haldin nýverið.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands var rekin með 36 milljóna afgangi á árinu 2023. Rekstur stofnunarinnar var þó þungur allt árið. Meginskýringin lá í talsverðum launabreytingum sem ekki voru bættar að fullu.
Önnur veigamikil skýring er mikil veikindi starfsfólks sem hefur talsverðan beinan kostnað í för með sér. Jafnframt felst mikill hulinn kostnaður í veikindum, svo sem vegna verkefna stjórnenda við að tryggja nauðsynlega mönnun á hverjum tíma og aukins álags á starfsfólk sem eftir er.
Ráða inn nema og lækna í sérnámi
Miklar áskoranir voru við mönnun á heilbrigðismenntuðu starfsfólki á árinu og á það við um flestar starfsstöðvar stofnunarinnar. Ein af þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til er að taka á móti fleiri nemum og læknum í sérnámi en fjárheimildir leyfa, með það í huga að byggja grunn undir mönnun, til dæmis heimilislækna. Til framtíðar eru meiri líkur á að fá fólk til starfa sem fær menntun í heimabyggð segir í skýrslunni. Og að þessi aðgerð sé byrjuð að skila árangri en breytingar á vinnumarkaði, nýjar kynslóðir með aðrar þarfir sem og fjölmenning krefjast nýrra áherslna og aðgerða og eru því spennandi áskoranir framundan.
„Heilt yfir gekk árið vel, kannanir sýna að íbúar svæðisins treysta stofnuninni vel og mörg markmið hafa náðst. Framkvæmdastjórn horfir björtum augum til framtíðar. Á árinu 2024 hafa verið mörg mikilvæg verkefni, s.s. stefnumótun og flutningur í nýja heilsugæslustöð á Akureyri en jafnframt mun stofnunin fagna tíu ára afmæli.“