Byggðarráð samþykkir að fara í endubætur á stjórnsýsluhúsi

Stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík. Mynd úr safni/epe
Stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík. Mynd úr safni/epe

Snemma á þessu ári greindist mygla í hluta Stjórnsýsluhúss Norðurþings á Húsavík og var starfsemi hússins flutt til að hluta. Fundir nefnda og ráða hafa af þeim orsökum farið fram  í fundarsal GB 5.

Stofnaður var starfshópur í lok apríl til að meta þá kosti sem í boði væru fyrir húsnæði stjórnsýslunnar með það að markmiði að skila haldgóðri tillögu að framtíðarlausn fyrir stjórnsýsluhús á Húsavík.

Helstu verkefni starfshóps:
Greina starfsemi stjórnsýslu og meta stærð varanlegs húsnæðis fyrir starfsemina.
Skilgreina áskoranir og tækifæri við breytingu á húsnæði stjórnsýslunnar.
Meta kosti og galla þeirra leiða sem eru í boði.
Kostnaðargreina valkosti.
Leggja fram tillögur til byggðarráðs að varanlegri lausn fyrir starfsemi stjórnsýslu.

Á fundi byggðarráðs Norðurþings í dag voru tillögur starfshópsins kynntar og samþykkt að fara leið 1. Þ.e. að farið verið í endurbætur á Ketilsbraut 7-9. Þar sem starfsemi stjórnsýslunnar er nú þegar til húsa. „Það rými sem ekki þarf undir starfsemi stjórnsýsluhúss fái annað hlutverk fyrir aðra þætti starfsemi Norðurþings,“ segir í fundargerð ráðsins.

Hafrún Olgeirsdóttir D-lista og Áki Hauksson M-lista greiddu atkvæði með tillögunni en Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar, B-lista sat hjá.

Þá létu áheyrnarfulltrúar S-lista og V-lista, Benóný Valur Jakobsson og Aldey Unnar Traustadóttir; bóka að þau styddu að farin yrði leið 1.

Hjálmar Bogi segir í samtali við Vikublaðið að hinar leiðirnar hafi annars vegar verið svokölluð leiguleið, þ.e. að leigja húsnæði af öðrum aðila eins og ríkið er víða að gera með sínar stofnanir. Svo er hin leiðin að nota Ketilsbraut 7 að hluta.

Aðspurður segir Hjálmar Bogi að hann hefði kosið að fara á leigumarkaðinn. „Ég er á þeim stað að fara þessa leiguleið og nýta fjármunina með öðrum hætti heldur en að fara í endurbætur á núverandi húsnæði,“ segir hann.

 

Nýjast