Búseturéttaríbúðum fyrir aldraða verði fjölgað

Mynd/Arkís arkítektar
Mynd/Arkís arkítektar
  • Kostnaðarhlutur Norðurþings í nýju hjúkrunarheimili verði fjármagnaður með lántöku

  • Til lengri tíma litið verði reknar búseturéttaríbúðir fyrir aldraða í Hvammi

  • Nauðsynlegt sé að forma skýrari ramma utan um búseturéttarúrræðin


 

Hjúkrunareimili

Í aðsendri grein veltir Hjálmar Bogi Hafliðason sveitarstjórnarfulltrúi B-lista í Norðurþingi fyrir sér hvernig kostnaðarhlutur Norðurþings í nýju hjúkrunarheimili á Húsavík verði fármagnaður. Hlutur Norðurþings er í dag um 680 milljónir króna.

SJÁ EINNIG: ALDRAÐIR, HVAMMUR OG HJÚKRUNARHEIMILI

 

Þá gagnrýnir Hjálmar meirihlutann fyrir kjarkleysi í samningaviðræðum við ríkið. Hann nefnir sem dæmi að kostnaður við tengigang sem tengir saman nýja hjúkrunarheimilið við eldri byggingar HSN sé fjármögnuð af sveitarfélögunum, þar hefði átt að leggja harðar að ríkinu að taka kostnaðinn.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings segir þetta vera eftirá skýringar minnihlutans. Frá upphafi hafi legið fyrir hvað ríkið greiðir og hvað það greiðir ekki. „Það er tíundað niður í teskeiðar," segir hann.

Kristján Þór

Kristján segir valið hafi verið um það að byggja hjúkrunarheimili sem væri ekki tengt þeim byggingum sem fyrir væru. „Við ræddum það strax í upphafi að okkur þótti skipta miklu máli að tengja þessar tvær byggingar saman. Það hefur verið ljóst alveg frá upphafi að tengibyggingin og [samveru]salur væri eitthvað sem ríkið myndi ekki greiða. Við kvittuðum upp á að fara í þessa vegferð og það lá fyrir frá upphafi að þetta yrði kostnaður sem myndi falla á okkur, það eru eftir á skýringar að segja að það sé eitthvað kjarkleysi. Þetta var einfaldlega ekki samningsatriði.“ segir hann.

 Lántaka óhjákvæmileg

Kristján segir að lántaka sé óhjákvæmileg nema eitthvað stórkostlegt gerist í rekstri sveitarfélagsins. „Ég kvíði því ekki að við náum ekki ágætis lánakjörum og eigum alveg að ráða við það,“ útskýrir Kristján og viðurkennir að það verði áskorun að koma rekstri sveitarfélagsins á réttan kjöl í kjölfar heimsfaraldursins. „Því miður hafa hlutirnir æxlast þannig almennt séð að það er ekki innistæða fyrir launahækkunum sem eru þó jákvæðar fyrir okkar fólk. Það er engu að síður ekki innistæða fyrir þeim nema við skrúfum niður í hlutum sem við erum ekki tilbúin til að skrúfa niður. Það er engin óráðssía í rekstri sveitarfélagsins sem pólitíkin er að kljást um,“ segir Kristján og bendir á að engar tillögur hafi komið frá minnihlutanum um hvað mætti betur fara í rekstri sveitarfélagsins.  „Það hafa ekki komið fram neinar tillögur frá minnihlutanum um hverju hefði mátt sleppa. Það á bara að gera meira.“

Hvað verður um Hvamm?

Með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis vaknar sú spurning hvernig megi nýta húsnæði Hvamms. Kristján segir líklegustu sviðsmyndina vera þá að búseturéttarúrræðum verði fjölgað enda sé þörfin mikil. Stjórn dvalarheimilisins Hvamms hafi rætt mögulegar sviðsmyndir undanfarið árið eða svo. „Það er eftirspurn eftir smærri íbúðum og það er hægt að fara hagkvæmar leiðir í því,“ segir Kristján og bætir við að nauðsynlegt sé að forma skýrari ramma utan um búseturéttarúrræðin. „Ég sé fyrir mér þegar til lengri tíma er litið að þá verðum við ekki að reka hjúkrunarheimili í Hvammi heldur verðum við að reka þessi búsetuúrrræði fyrir aldraða. Það verði kjarninn í þeirri starfsemi og að við nýtum þær byggingar í auknum mæli fyrir þjónustu til handa eldri íbúum. Það liggur beinast við.“

Héraðsnefnd Þingeyinga stendur fyrir opnum íbúafundi í haust þar sem þessi málefni verða rædd.

Nýjast