Búfesti skilar inn lóðum við Þursaholt 2 til 12

Búfesti hefur óskað eftir að skila inn lóðum sem félagið hafði fengið úthlutað við Þursaholt 2 til 1…
Búfesti hefur óskað eftir að skila inn lóðum sem félagið hafði fengið úthlutað við Þursaholt 2 til 12 Mynd: Vikublaðið

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um hvað við gerum við lóðina, hvort hún verður auglýst aftur eins og hún er eða hvort við skoðum mögulegar breytingar,“ segir Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi  Akureyrarbæjar um lóðina Þursaholt 2 til 12.

Lóðin er í hinu nýja Holtahverfi norður, í nyrsta hluta hverfisins og hafði Búfesti fengið lóðinni úthlutað. Félagið hefur nú óskað eftir því að skila lóðinni til Akureyrarbæjar aftur.

Skipulagsráð fjallaði um málið á fundi og fól skipulagsfulltrúa að útbúa minnisblað um möguleika á uppbyggingu lóðarinnar og leggja fyrir ráðið.

Samvinna við eldri borgara

Á svæðinu hugðist Búfesti reisa ríflega 130 íbúðir í nokkrum fjögurra hæða húsum. Gert var ráð fyrir að tvö húsanna yrðu byggð í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri og eyrnamerkt fólki 60 ára og eldra, en mikil eftirspurn er eftir hentugu húsnæði frá þeim hópi. Í fyrrasumar komust áform um uppbyggingu íbúðanna í uppnám vegna nýrra lánaskilyrða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS sem voru þess eðlis að bróðurpartur félagsmanna féll ekki undir þau tekju- og eignamörk sem sett voru. Mikil óánægja braust út í kjölfarið meðal eldri borgara með útspil HMS. Framkvæmdir Búfestis fóru í biðstöðu í fyrrasumar á meðan þess var freistað að fá HMS til að  breyta nýju lánaskilyrðunum.

HMS slítur 30 ára samstarfi

„Þetta er mikil vonbrigði. Það er mikil þörf fyrir íbúðir af því tagi sem til stóð að byggja á þessu svæði, þ.e. íbúðir sem eru án mjög strangra tekju- og eignamarka. Við komust því miður ekki áfram með málið og staðan er sú að HMS hefur ákveðið að slíta 30 ára samstarfi við okkur nema í flokki niðurgreiddra félagslegra íbúða,“ segir Eiríkur H. Hauksson framkvæmdastjóri Búfestis. Hann bætir við að vissulega sé ástand efnahagsmála heldur ekki að hjálpa þegar kemur að stórum verkefnum líkt og til stóð að hefja við Þursaholt. Háir vextir og mikil verðbólga gerir ekki fýsilegt að ráðist í byggingu yfir 130 íbúða.

Nýjast