Brúin á Drottningarbrautarstígnum
Ég hef ekki oft heyrt vitlausari nafngift á verki og heyrst hefur á brúnni, sem getið er um hér í fyrirsögninni þ.e. Leikhúsbrúin. Brúin á ekkert skylt við leikhúsið okkar Samkomuhús bæjarins með mikilli virðingu fyrir því. Yfir þetta fallega mannvirki kemur aldrei til með að fara neinn leikhúsgestur í eða frá leikhúsinu. Aftur á móti er mikil umferð gangandi fólks þarna um bæði bæjarbúa og ekki síst erlendra ferðamanna.
Saga stígsins austan Drottningarbrautarinnar og brúarinnar er sú að upphafsmaðurinn og hugmyndasmiðurinn að brúnni og göngustíngnum er
Sigfús Karlsson, endurskoðandi hér í bæ, en þar sem hann er ekki fagmaður á þessu sviði fékk hann akureyrskan arkitekt til að teikna upp mannvirkið á faglegan og fallegan hátt og hefur tekist vel til. Nafngiftin á brúnni gæti verið t.d. Drottningarbrautarbrúin, Brúin við Pollinn, Sigfúsarbrú til að ninna á höfundinn eða bara Fúsabrú. Svo eru e.t.v. önnur nöfn sem til greina koma, en ekki Leikhúsbrúin, því það er út úr kortinu. Hvaða menningarpostula skyldi nú hafa dottið sú nafngift í hug?
Peningaausturinn í gæluverkefni
Það var ekki hátíð í bæ heldur hátíð hjá MAK og LA þegar stóraukin fjárframlög bæjarstjórnar Akureyrar til þessara stofnana verða kynnt nú í byrjun mars og hækka um litlar 50 milljónir, já ég segi og skrifa 50 milljónir. Í frétt Vikudags frá 1. febrúar sl. fagnar auðvitað framkvæmdastjóri
MAK, Þuríður Helga, hækkuninni (hver myndi ekki fagna 50 milljónum), sem hún telur sérstaklega efla starf Leikfélags Akureyrar. Ennfremur segir hún að nú þegar þriggja ára tímabili, sem átti að vera til reynslu, sameiningar LA, Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands sé lokið hafi sú ákvörðun verið hárrétt.
Það eru ekki aldeilis allir sammála, enda var þessi ákvörðun tekin á fundi hjá LA á sínum tíma og samþykkt með naumum meirihluta atkvæða eftir að bæjarstjórnarmeðlimur, sem sá sig knúinn til að mæta á fundinn (eiginmaður þáverandi formanns LA) og hélt magnþrúngna ræðu um ágæti
fyrrgreinds samruna til reynslu. Það eiga margir eftir að sjá eftir þessu ótrúlega frumhlaupi ekki síst eftir að fer að harðna á dalnum hjá bæjarsjóði því moksturinn í MAK er ekki hættur, því til stendur að ausa enn meiri peningum í batteríið á næsta ári.
Haldið ykkur nú. Sannanlega hefur starfsemi LA þessi þrjú síðust reynslu ár verið þau allra lélegustu í manna minnum eða þau 100 ár sem eru frá stofnun LA. Ég myndi ráðleggja framkvæmdastjóra MAK að kynna sér og lesa sögu Leikfélags Akureyrar frá upphafi því hún er til mjög ítarleg og aðgengileg eftir höfunda sem eru miklir sómamenn. Þá kemur ýmislegt í ljós, sem gott væri fyrir Þuríði Helgu að kynna sér því hún virðist ekki bera neitt einasta skynbragð á rekstur, a.m.k. LA, og auðvitað hefði verið skynsamlegast og rökrétt að greiða aftur atkvæði um áframhaldandi veru LA í MAK.
Þá hefði Guðmundur Baldvin og Þuríður Helga getað látið ljós sín skína en hvort sú birta hefði orðið til að fífla fólk til fylgilags skal ósagt látið. Einhverra hluta vegna var ekki farið að heiðarleika og önnur atkvæðagreiðsla viðhöfð um áframhaldandi veru LA í MAK. Kannski ekki tekin áhættan á því eftir hundlélegust þrjú ár í 100 ára sögu leikfélags Akureyrar.
Ekki sitja allir við sama borð
Á sama tíma og fyrrgreindur peningaaustur stendur fyrir dyrum kemst ég heldur ekki hjá að minnast á yfirgengilega háa fjárhæð, sem talin er
nema á annað þúsund milljörðum króna í Sundlaug Akureyrar, Ketilhúsið, gamla Mjólkursamlagið og tengibyggingu þar á milli í Kaupfélagsgilinu og mörgum bæjarbúum blöskrar. Svo ekki sé meira sagt. Á sama tíma er göngudeild SÁÁ hér í bæ í verulegum rekstrarerfiðleikum vegna fjárskorts svo til stendur að loka deildinni. Mikið strögl stendur um fjárveitingu frá Akureyrarbæ til þessarar mikilvægu og nauðsynlegu stofnunar sem jafnvel bjargar mannslífum.
Fólks sem á við áfengis og önnur vímuefnafíkn að stríða. Þetta fólk er ekki að leika og ekki meðlimir í LA. RÚV hefur greint frá því að kostnaður við rekstur göngudeildar SÁÁ á Akureyri sé 17 milljónir á ári en það er ekki nema 1/3 af 50 milljónunum, sem á að ausa í MAK og LA en þar kemur líka menningarsnobbið til sögunnar.
Illa hirtar götur bæjarins í snjó
Að lokum höfum við Akureyringar verið svo heppnir, alla vega upp á síðkastið, að búa við hláku og auðar götur. En þegar hefur snjóað eru göturnar svo illa ruddar svo ég tali nú ekki um illa skafnar alveg niður í malbik svo illkeyrandi hefur verið um bæinn því það myndast það sem kallað er þvottabretti og allt ætlar að hristast í sundur. Þetta fer mjög illa með öll ökutæki.
Nú, mikið keyrðar götur eru alls ekki ruddar eins og t.d. Oddeyrargatan og mætti nefna fleiri en það er svona þegar að peningunum er veitt í annað en þeir þurfa nauðsynlega að fara. Ég nefnilega trúi því ekki að yfirmaður þessara mála, Jón Hansen, sá ágæti maður leggi sig ekki allan fram og hef ég ekki orðið var við annað, þegar að kemur að hreinsun gatna. En einu sinni enn vantar e.t.v. peninga til þess, sem nauðsynlegt er.