20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Börn og ungmenni í Hrísey vilja gervigrasvöll
Börn og ungmenni í Hrísey hafa lengi kallað eftir því að fá gervigrasvöll á skólalóðina sína líkt og er hjá öllum öðrum grunnskólum í sveitarfélaginu. Málið var rætt á bæjarstjórnarfundi unga fólksins á dögunum.
Núverandi völlur er staðsettur á grasbletti sem verður að drullu þegar rignir. Einnig er erfitt að spila á þessum velli í snjó. Innanbæjar á Akureyri séu hins vegar allir vellir upphitaðir.
Vakti Fríða Björg Tómasdóttir athygli á 2. gr. barnasáttmálans sem segir að öll börn séu jöfn. Lítið hafi verið um svör frá bænum varðandi þetta mál, en margir kostir séu við að fá upphitaðan völl í Hrísey, svo sem aukin hreyfing, aukin samskipti og betri hreyfing. Hvatti hún til þess að gert yrði ráð fyrir slíkum velli í áætlunum bæjarins.
Óviss um hvort gervigrasvellir verði leyfilegir
Hlynur Jóhannsson bæjarfulltrúi brást við umræðum Fríðu Bjargar og benti á að þegar vellirnir komu við skólana hafi það verið átaksverkefni á vegum KSÍ en félagið sé ekki að veita fé til slíkra verkefna nú.
Í framtíðinni verði þeir vellir sem eru til staðar ekki upphitaðir yfir köldustu vetrarmánuðina. Einnig er óvissa um hvort að gervigrasvellir verði leyfilegir innan næstu fimm ára. Bærinn mun því miður ekki koma að því að setja upp fleiri gervigrasvelli að svo stöddu.