Bogfimideild Íþróttafélagsins Akurs í nýtt húsnæði

Alfreð Birgisson segir mikla framför að fá húsnæði undir starfsemi bogfimideildar Íþróttafélagsins A…
Alfreð Birgisson segir mikla framför að fá húsnæði undir starfsemi bogfimideildar Íþróttafélagsins Akurs Mynd MÞÞ

„Þetta er mikil framför og við hlökkum til vetrarins og að geta kynnt íþróttina fyrir almenningi. Við finnum fyrir miklum áhuga,“ segir Alfreð Birgisson há Íþróttafélaginu Akri – bogfimideild sem opnar um helgina nýja aðstöðu við Kaldbaksgötu 2 á Akureyri. 

Deildin hefur verið á hrakhólum um skeið, var síðast með lítið pláss í kjallara Íþróttahallarinnar og þar komust einungis fyrir afreksíþróttafólk, í allt fjórir og engin leið að taka inn nýliða eða bjóða upp á almennar æfingar. Húsnæðið er í eigu Blikk- og tækniþjónustunnar sem flutt hefur starfsemi sína annað. Fær bogfimideildin um 200 fermetra húsnæði til umráða auk þess sem tveir 40 feta gámar eru til reiðu en þeir uppfylla reglur um lengd keppnisvalla. Sjálfboðaliðar á vegum deildarinnar hafa unnið hörðum höndum undanfarnar vikur við endurbætur á húsnæðinu.

Finna fyrir áhuga

„Við gerum allt sjálf og borgum þetta líka sjálf. Við vitum að Akureyrarbær vill ekki að íþróttafélög séu að leiga húsnæði af einkaaðilum úti í bæ en þetta er kannski millileikur þar til eitthvað annað og betra býðst. Hér getum við boðið upp á æfingar og við finnum mikinn áhuga bæði hjá þeim sem voru áður í þessari grein og líka hjá nýliðum sem langar að prófa. Ég yrði ekki hissa þó um það bil 40 manns yrðu við æfingar hjá okkur í vetur,“ segir Alfreð.

Hann bendir á að fleiri íþróttagreinar búi við svipaða aðstöðu og bogfimideildin, þ.e. að hafa ekki fast og nægilega gott húsnæði fyrir starfsemina. Hann varpar fram þeirri hugmynd að byggt verði á Akureyri fjölnota íþróttahús þar sem hægt væri að koma fyrir nokkrum íþróttagreinum og vísar í Egilshöll sem fyrirmyndar. „Ég held það yrði gott skref að taka og leysti húsnæðimál fleiri íþróttagreina en bara bogfiminnar,“ segir Alfreð.

Nýjast