13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Boða hækkun út á markaðinn í takt við hækkandi matvælaverð
Birgir Arason formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar og bóndi í Gullbrekku í Eyafjarðarsveit fagnar því að Kjarnafæði-Norðlenska hafi birt væntanlegt verð fyrir sauðfjárafurðir til bænda næsta haust. Félagið mun hækka verð um að lágmarki 10% frá endanlegu verði fyrir dilkakjöt árið 2021. Vonir standa til að markaðsaðstæður verði með þeim hætti á komandi hausti að unnt verði að hækka innlegg umfram þessi 10%. Félagið mun nú í maí næstkomandi greiða 3% uppbót á innlagt dilkakjöt árið 2021.
„Ég fagna því að verðið komi fram svo snemma, þetta er nokkuð sem við sauðfjárbændur höfum lengi barist fyrir. Það sem ég les út úr þessu er að fyrirtækið er að boða hækkun út á markaðinn og það er í takt við þær verðhækkanir á matvælum sem verslunin hefur boðað að séu í vændum,“ segir Birgir.
Lítið svigrúm til að hagræða
Hann segir að bændur standi líka frammi fyrir miklum hækkunum í sínum rekstri og þar sé nærtækt að benda á að áburður hækki yfir 100% frá því sem var í fyrra. Þörf bænda fyrir hækkun á afurðum sé meiri, allt að 60% en þeir þyrftu að fá um 850 krónur fyrir kílóið til að standa undir framleiðslukostnaði. Þeir hafi ekki mikið svigrúm til að hagræða í sínum rekstri og fátt eitt sem þeir geti skorið niður. Birgir segir að því megi velta fyrir sér hvort framleiða eigi lambakjöt hér á landi á kostnaðarverði og horfa þá til þess að markaðurinn dragist þá töluvert saman í kjölfar þess að verð hækki.
Glórulaus akstur
Bendir Birgir á að sláturleyfishafar gætu frekar en bændur hagrætt hjá sér og nefnir í því sambandi flutningskostnað, en fé sé iðulega ekið um langan veg og jafnvel fram hjá sláturhúsum til að fara í annað. Dæmi séu um flutninga fram hjá sláturhúsi á Húsavík og þá sé fé flutt af Suðurlandi og til Sauðárkróks. „Þetta er alveg glórulaust og kostar mikinn pening,“ segir hann en eftir því sem hann kemst næst liggi kostnaður við sauðfjárflutninga ekki fyrir. Til sé 10 ára gömul skýrsla sem leiði í ljós að spara hefði mátt um 120 milljónir króna með því að hagræða í akstrinum.
Hann bendir einni á að sauðfé hafi fækkað um 100 þúsund fjár frá árinu 2016, en það jafngildir nánast því sem sláturhúsin á norðanverðu landinu slátri að jafnaði á hverju hausti. „Fækkunin nemur einu sláturhúsi, en samt er enn verið að slátra í öllum húsunum fyrir norðan.“
/MÞÞ