Bleikur október á enda

Regína Ólafsdóttir
Regína Ólafsdóttir

Undanfarin 10 ár hafa Krabbameinsfélag Íslands og aðildarfélög helgað október baráttu gegn krabbameini hjá konum. Krabbameinsfélag Íslands selur bleiku slaufuna í ár til styrktar Ráð­gjafarþjónstu félagsins og aðildarfélögum með það að markmiði að efla stuðning, fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga um allt land sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra.

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis (KAON) tekur að sjálfsögðu þátt í þessu verðuga verkefni með því að vera sýnilegir þátttakendur í hinum ýmsu viðburðum bæjarins. Einnig hafa starfsmenn KAON meðal annars mætt víða með gervibrjóst sem eru með ber
sem líkja eftir krabbameinum og kennt fólki að leita.

Frá árinu 2008 hafa Dömulegir dekurdagar verið áberandi í októbermánuði á Akureyri og síðustu ár hafa mörg fyrirtæki nýtt tækifærið og styrkt
Krabbameinsfélag Akureyrar í þessum mánuði. Það yljar okkur starfsmönnum félagsins alltaf jafn mikið að taka á móti styrkjum frá fyrirtækum, félögum og einstaklingum og án þeirra væri þjónustan ekki fyrir hendi. Þess má geta að undirrituð starfar nú sem sálfræðingur hjá félaginu fyrir tilstuðlan fjárhagsstyrkja. Uppgjör Dömulegra dekurdaga fór fram á Icelandair hotel í gærkvöld en þá tóku starfsmenn og stjórn KAON á móti styrkjum sem safnast hafa. 

Einbeiting og minni
Minnisnámskeið verður í húsnæði Krabbameinsfélags Akureyrar og ná­grennis, Glerárgötu 24, Akureyri í kvöld, föstudaginn 3. nóvember. Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhyggjur af minni sínu í kjölfar veikinda en einnig þeim sem vilja fræðast um minnið og læra að nýta sér mismunandi minnistækni. 

Fræðsluefni og upplýsingar
Á vefsíðu Krabbameinsfélags Íslands er að finna mikið af fræðsluefni og stöðugt er verið að afla frekari upplýsinga og bæta við fræðslu og ráð­
leggingar. Á vef Bleiku slaufunnar má einnig finna ráðleggingar.

Mig langar að vísa sérstaklega í ráð­leggingar fyrir vinnufélaga þeirra sem greinast með krabbamein. Þar kemur fram að líklegt sé að auðveldara verði fyrir starfsmann sem veikist að mæta aftur til vinnu, ef hann og samstarfsmenn halda reglulegu sambandi á meðan starfmaðurinn er fjarverandi.

Þó þarf að virða ef starfmaðurinn vill ekki halda sambandi. Einnig er vinnufélögum bent á að spyrja beint út hvort og hvernig sé hægt að aðstoða við­ komandi með spurningum eins og: „Væri í lagi að ég hefði samband eða kíkti við hjá þér öðru hverju eða viltu fá ró og næði?“ eða „Viltu hringja í mig ef það er eitthvað sem ég get að­ stoðað þig við? Eða væri í lagi að ég hefði samband öðru hverju til að athuga hvort það sé eitthvað sem ég
gæti hjálpað þér með?“ Fleiri góðar ráðleggingar er að finna á krabb.is og bleikaslaufan.is.

Jólakransagerð fyrir börn og ungmenni

Í lokin vil ég minna á að þann 24. nóvember er árlegur viðburður sem okkur hjá KAON þykir sérstaklega vænt um. Það er jólakransagerð fyrir börn og ungmenni sem hafa greinst með krabbamein eða eiga nákominn ættingja sem greinst hefur með krabbamein. Þetta er notaleg kvöldstund þar sem auðvelt er að gleyma sér með börnum í jólagleði. Bakaríið við Brúna færir okkur góðar veitingar og allir fá að taka kransinn sinn með heim.

Hægt er að fylgjast með starfsemi Krabbameinsfélags Akureyrar á facebook og heimasíðu félagsins á kaon.is. Einnig hægt að fá nánari upplýsingar í síma 461 1470 þegar skrifstofan er opin, frá mánudegi til fimmtudags frá 13­-16.

-Höfundur er sálfræðingur hjá KAON fyrir tilstuðlan fjárhagsstyrkja.

Nýjast