„Bleikjan hefur í raun fylgt mér alla tíð“

Birgir Össurarson á pontu á Sjávarútvegsráðstefnunni   Myndir  Samherji.is
Birgir Össurarson á pontu á Sjávarútvegsráðstefnunni Myndir Samherji.is

Ísland flytur út sjávarafurðir til nærri níutíu þjóðlanda og eðli málsins samkvæmt eru markaðslögmálin mismunandi, enda kröfur og hefðir ólíkar eftir löndum.

Þrátt fyrir gæði og ferskleika íslenskra sjávarafurða selur fiskurinn sig ekki sjálfur, síður en svo.

Á einni málstofu Sjávarútvegsráðstefnunnar í Reykjavík í dag voru sagðar sögur úr heimi sölumála sjávarafurða, tilgangurinn var að miðla þekkingu og reynslu til annarra.

Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood, sem annast sölu afurða Samherja og fleiri fyrirtækja, var einn þeirra sem sagði frá sinni reynslu í sölumálum en hann hefur starfað í greininni í áratugi.

Tryggja þarf stöðugt framboð alla daga ársins

„Fyrst þarf auðvitað að sannfæra viðskiptavininn um ágæti vörunnar og við búum svo vel að framleiða hágæða fiskafurðir fyrir kröfuharða viðskiptavini. Til að byggja upp stöðugleika þarf reglulegt og áreiðanlegt framboð af afurðum, við þurfum sem sagt að tryggja okkar kaupendum fisk alla daga ársins. Stöðugt framboð afurða 365 daga ársins er í raun stór áskorun sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir.“

 Hörð samkeppni, barátta um hillupláss

„Markaðsmálin eru endalaus vinna því samkeppnin er mikil. Hagkerfin sveiflast og kaupmáttur fólks þar með. Stöðugt framboð, öruggar flutningaleiðir hvort heldur er á sjó eða lofti og kynningar eru þættir sem hafa mikil áhrif á árangur sölustarfsins. Gleymum því ekki að við erum í samkeppni um hillupláss í stórmörkuðum og að komast á matseðla veitingahúsa.“

Enn talað um heitu pottana á Hauganesi

Birgir nefnir farsælt og áralangt viðskiptasamband við verslanakeðjuna Whole Food Market í Bandaríkjunum varðandi sölu á laxi og bleikju.

„ Við höfum selt Whole Food lax og bleikju úr landeldisstöðvum okkar í um tuttugu ár og með árunum hefur myndast gagnkvæmt traust, sem er mikils virði fyrir báða aðila.

Reglulega koma hingað hópar frá Whole Food til þess að kynna sér framleiðsluna og í leiðinni er tækifærið notað til að treysta sambandið enn frekar. Þá er oftar en ekki farið með gestina á valda staði á Íslandi, sem er jú þekkt fyrir einstaka náttúrufegurð. Svona ferðir þurfa aldeilis ekki að vera flóknar til að skila árangri og skapa góðar minningar.

Ég minnist þess til dæmis þegar við vorum eitt árið með hóp frá Whole Food í Eyjafirði. Eftir langan vinnudag var ákveðið að fara með hópinn í heitu pottana í fjörunni á Hauganesi, aðgöngumiðinn í pottana var sagður að fyrst þyrfti að skutla sér í ískalt Atlantshafið. Ég var nú ekki sá vinsælasti á staðnum eftir þessa tilkynningu en gestirnir tala enn um þessa upplifun með bros á vör. Þetta kennir okkur að hlutirnir þurfa ekki alltaf að vera flóknir og þegar við hittumst er þessi samvera á Hauganesi gjarnan rifjuð upp.“

„Gamla myndin“ dregin fram

„Jú jú, starfið er skemmtilegt og fjölbreytt. Hjá Ice Fresh Seafood starfar einvala lið sem þekkir markaðinn í þaula. Það eru forréttindi að vera hluti af slíku teymi og mér þótti sjálfsagt að segja nokkrar sögur á málstofunni, það er jú hlutverk okkar sem eldri erum að miðla reynslunni. Reyndar er það nú svo að bleikjan hefur fylgt mér alla tíð. Því til staðfestingar sýndi ég hálfrar aldar gamla mynd af Birgi Össurarsyni, sem bauð til sölu afla dagsins í kaupfélaginu á Dalvík. Þetta voru vænar bleikjur og salan var býsna góð. Og staðreyndin er að nokkrum áratugum síðar gengur sömuleiðis vel að selja“, segir Birgir Össurarson sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood.

Gamla myndin

Heimasíða Samherja segir frá

 

 

Nýjast