20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Björn Snæbjörnsson lætur af störfum
Í gær, þriðjudaginn 31. október 2023, var síðasti formlegi vinnudagurinn hans Bjössa, fyrrum formanns, eftir rúmlega 41 ár í starfi fyrir Einingu-Iðju og Einingu þar á undan. Í gær reiknaði hann út að starfsdagar hans fyrir félagið væru þar með orðnir 14.612. Starfsmenn félagsins segja við þessi tímamót í lífi Bjössa; takk kærlega fyrir samstarfið undanfarin ár og áratugi.
Langa fríið
Á aðalfundi félagsins í apríl þá lét Björn Snæbjörnsson af formennsku eftir 31 ár í formannsstólnum. Þá sagði hann m.a. í ræðu sem hann flutti, “Nú er starfstíma mínum að ljúka, ég er að fara í langa fríið. Þann 1. maí 2023 verða 41 ár síðan ég hóf störf hjá Verkalýðsfélaginu Einingu. Þetta hafa verið frábær ár og ef ég mætti velja hvort ég mundi fara aftur í þetta starf þá mundi ég segja já. Það er svo gefandi að umgangast ykkur kæru félagar og ekki síst að ná árangri í að þið náið réttindum ykkar og að allt sé eins og samningar segja til um.
Oft hafa verið umbrotatímar og að vera formaður í stéttarfélagi er ekki eitthvað sem gerir mann vinsælan heldur er oft gremja yfir einhverju látin bitna á formanni í umræðunni. En ég vil minna þá sem taka við keflinu á að Eining-Iðja er stærsta félagið á landsbyggðinni og annað stærsta innan SGS og takið það sem ykkur ber, verið í forustu innan hreyfingarinnar þar hafið þið mestu möguleikanna á að hafa áhrif. Gefið aldrei eftir þó að ykkar persónulegi metnaður segi annað, hafið félagsmenn ykkar í huga. Það að vera í stafni tryggir að þið hafið áhrif og vinnið þannig best að hagsmunamálum ykkar kæru félagar.”
Heiðursfélaginn Björn
Á aðalfundinum var fyrsta verk Önnu, þá nýkjörin sem formaður félagsins, að sæma Bjössa gullmerki Einingar-Iðju. Að því loknu tilkynnti Anna jafnframt að stjórn félagsins hefði ákveðið að gera Björn að heiðursfélaga Einingar-Iðju. Fundargestir risu úr sætum og hylltu Björn vel og lengi.
Anna sagði við tilefnið að hún gæti haldið langa ræðu um störf Bjössa fyrir félagið en hún hefði ákveðið að segja bara örfá orð því það væri nógu erfitt fyrir hana ,,Björn gegndi embætti formanns Einingar-Iðju frá árinu 1999 og Verkalýðsfélagsins Einingar þar á undan frá árinu 1992, eða samtals í 31 ár. Hann sat sem meðstjórnandi í stjórn Einingar árin 1982 til 1986 og sem varaformaður frá árinu 1986. Árin í stjórn félagsins voru því orðin 41 þegar hann hætti formennsku rétt áðan. Björn hóf störf á skrifstofu félagsins ári eftir að hann settist fyrst í stjórn en hann mun starfa áfram hjá okkur til 31. október nk. Björn hefur setið í fjölmörgum ráðum, nefndum og stjórnum fyrir hönd félagsins."
Heimasíða Einingar Iðju sagði frá