Björn Mikaelsson hannaði og hnýtir bleiku fluguna

Björn Mikaelsson með þá bleiku                    Myndir MÞÞ og aðsendar
Björn Mikaelsson með þá bleiku Myndir MÞÞ og aðsendar

Björn Mikaelsson fyrrverandi lögreglumaður á Sauðárkróki og nú ákafur áhugamaður um fluguhnýtingar var ekki lengi að koma sér að verki þegar dóttir hans, Hrönn Arnheiður spurði hvort hann væri til í að hnýta bleika flugu. Hann hefur setið við í vinnuaðstöðu sem hann hefur komið sér upp í bílskúr við hús sitt og flugurnar hafa komið ef svo má segja á færibandi.  Björn hnýtir og Hrönn selur.

„Mig langaði að gera eitthvað í takt við bleiku slaufuna , það er svo frábærlega vel heppnað verkefni í bleikum október,“ segir Hrönn um kveikjuna að því að hún fór að hugleiða bleika flugu. Bleika slaufan er verkefni sem tengist Dekurdögum á Akureyri, bleikar slaufur eru seldar og settar upp m.a.  á ljósastaura og setja skemmtilegan svip á umhverfið. Ágóðinn rennur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Björn Mikaelsson hannaði og hnýtti bleiku fluguna, en Hrönn dóttir hans sér um söluna.

Styrkir krabbameinsfélagið

Það sama á við um bleiku fluguna hans Björns. Hún kostar 1000 krónur og rennur andvirðið óskipt til krabbameinsfélagsins. Björn reiknar sér ekki einu sinni efniskostnað. „Það er gott að leggja góðu málefni lið,“ segir hann og er hæstánægður með góðar viðtökur. Hrönn segir að sala sé rétt að hefjast.  „Við vorum svolítið sein í gang að þessu sinni, en það kemur vonandi ekki að sök, enn er eftir talsvert af október.“

Björn starfaði um langt árabil sem lögreglumaður, fyrst á Akureyri og síðar á Sauðárkróki og segir hann að ævinlega þegar „gamlar löggur“ séu á ferðinni á Króknum líti þær við í skúrnum hjá okkur, forvitnist um flugurnar og taka létt spjall um daginn og veginn.

Grímur góður félagsskapur

„Ég hafði gaman af því að veiða hér á árum áður, en er orðinn of gamall til þess núna,“ segir hann en hann sótti m.a. bæði í lax- og silungsveiði meðan hann stundaði veiðiskapinn. „Mér líður vel með flugunum mínum, þetta er skemmtileg iðja sem á mjög vel við, það er ró og friður og nægur tími til að hugsa,“ segir hann. Með honum í bílskúrnum er hundur hans, Grímur sem gott er að spjalla við inn á milli. „Grímur er vænsta grey, nema kannski þegar hann reyndi að grípa nokkrar flugur sem voru komnar á sinn stað í boxi, en honum fyrirgefst það eins og annað,“ segir Björn.

Kenndi fluguhnýtingar á námskeiðum víða um land

Í eina tíð lagðist hann í ferðalög austur á land og tók hringinn um landið með námskeið í fluguhnýtingum sem voru vel sótt og vinsæl á sinni tíð. Þá var hann einnig með námskeið á vegum Farskóla Norðurlands vesta. „Það var gaman að kenna á þessum námskeiðum, gott að geta miðlað þekkingu sinni til áhugasamra fluguhnýtingamanna,“ segir hann. „Þetta var skemmtilegt á meðan ég var yngri og sprækari.“

Björn er vel í stakk búinn til að sitja við fluguhnýtingar

Bleikari næst

Björn segist vel í stakk búinn til að sitja við fluguhnýtingar, hann sé ekki skjálfhentur og sjái ágætlega. „Það gefur mér mikið að hnýta flugur,“ segir hann og er með fjölda hugmynda í kollinum að framtíðarflugum. Meðal annars hefur hann hug á að gera breytingar á bleiku flugunni sinni. „Ég er að hugsa um að hafa hana bleikari næst, hafa bæði hausinn og búkinn bleikan,“ segir hann.

Sú bleika er ansi álitleg. 

Nýjast