Bjóða Eyjafjarðarsveit að kaupa hlut þess í félaginu
Meirihluti stjórnar Norðurorku, Hlynur Jóhannsson, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Þórhallur Jónsson, töldu rétt að bjóða Eyjafjarðarsveit að Norðurorka kaupi hlut þeirra í félaginu beri sveitarfélagið ekki traust til félagsins. Sif Jóhannesar Ástudóttir og Hlynur Örn Ásgeirsson sem einnig sitja í stjórn Norðurorku tóku ekki undir bókunina og töldu réttara að taka frekara samtal um málið.
„Þetta var kurteisisboð, ef Eyjafjarðarsveit er ósátt og vill losna út úr félaginu er sjálfsagt að bjóða upp á þann valkost,“ segir Hlynur Jóhannsson formaður stjórnar Norðurorku. Hann segir tilboðið standa en svör við því hafi ekki borist. Eyjafjarðarsveit eigi um 0.12% hlut í Norðurorku.
Tilefni þess að tilboðið er sett fram eru viðbrögð við tölvupósti frá forsvarsmönnum Eyjafjarðarsveitar þar sem m.a. segir að ekki hafi fengist samþykki fyrir stækkun hitaveitu austan megin í firðinum. Vanefndir hafi orðið af hálfu Norðurorku við að útvega heitt vatn til svínabús og loks að ekki sé hægt að útvega heitt vatn til nýs hótels við Skógarböðin. Bréf frá Eyjafjarðarsveit var sent eftir ósk um að eigendur Norðurorku gengu í ábyrgð fyrir framkvæmdaláni sem tekið var hjá Sambandi sveitarfélaga. Öll sveitarfélög hafa nú veitt samþykki sitt.
Varðandi stækkun á hitaveitu austan megin í firðinum segir stjórn Norðurorku að því hafi verið synjað fyrst og fremst á þeim forsendum að ekki sé til nægt vatn til að ráðast í stækkun. Fyrir liggi að dreifiveitan þurfi á öllu sínu að halda til að mæta stækkandi byggðakjörnum og þéttingu byggðar á starfssvæði fyrirtækisins, m.a. í Eyjafjarðarsveit. Þá kemur fram varðandi vatn til svínabús að boðið hafi verið upp á valkost varðandi afhendingu á heitu vatni sem eiganda þess hugnast ekki. Magn sem óskað er eftir hafi rúmlega fimmfaldast frá fyrstu áætlunum og breytt forsendum verulega. Í þriðja lagi vildi Eyjafjarðarsveit ræða það að ekki væri hægt að útvega heitt vatn til nýs hótels við Skógarböðin. Var á það bent að gott samtal er í gangi á milli Norðurorku og aðila sem að væntanlegu hóteli standa um lausn á því máli og engin ástæða til að gera ágreining um það.