Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tekur við embætti matvælaráðherra

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tekur við lyklum að matvælaráðuneytinu úr hendi Svandísar Svavarsdóttur …
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tekur við lyklum að matvælaráðuneytinu úr hendi Svandísar Svavarsdóttur Mynd Sigurjón Ragnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur tekið sæti sem matvælaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Bjarkey tók við lyklavöldum í matvælaráðuneytinu í dag af Svandísi Svavarsdóttur sem tók við embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í nóvember árið 2021 og við embætti matvælaráðherra við stofnun matvælaráðuneytis 1. febrúar árið 2022.

Bjarkey er fædd í Reykjavík 27. febrúar 1965. Hún lauk B.Ed.-prófi í Kennaraháskóla Íslands með áherslu á upplýsingatækni og samfélagsgreinar árið 2005 og diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands 2008.

Bjarkey var bæjarfulltrúi í Ólafsfirði 2006–2013, formaður svæðisfélags VG í Ólafsfirði 2003–2009, varaformaður VG í Norðausturkjördæmi 2003, formaður 2005–2008 og gjaldkeri 2008–2013. Hún var einnig formaður sveitarstjórnarráðs VG 2010–2013 og hefur setið í stjórn VG frá 2009. Hún settist reglulega á þing sem varaþingmaður Norðausturkjördæmis frá nóvember 2004 til mars 2013 fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og var formaður þingflokks sama flokks árin 2017–2021.

Frá árinu 2013 hefur Bjarkey verið alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð og sat í fjárlaganefnd 2013–2019, 2020–2021 og 2021–2023 (formaður 2021–2023), allsherjar- og menntamálanefnd 2014–2016 og 2019–2021, atvinnuveganefnd 2020 og 2021–, utanríkismálanefnd 2020, kjörbréfanefnd 2017, þingskapanefnd 2019–2021, velferðarnefnd 2023– (formaður 2023–).

Að auki hefur Bjarkey setið í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2017–2021 og 2021–, þingmannanefnd Íslands og ESB 2018–2021 og 2022 til dagsins í dag.

Nýjast